Fjarlægð tunglsins

Í meira en öld hefur fjarlægð tungls verið reiknuð með aðferð sem enski stjörnufræðingurinn Ernest Brown þróaði og birti á árunum 1897 til 1908. Formúlur Browns, sem reyndar hafa verið endurbættar nokkrum sinnum,  gefa fjarlægðina sem fall af stöðu tungls á braut sinni um jörðu og afstöðu þess til  sólar. Út frá þessum formúlum hafa menn ályktað að fjarlægð tungls sveiflist frá u.þ.b. 356400 km til 406700 km, en meðaltalið sé 384400 km.

Þessa síðustu tölu er að finna í mörgum bókum um stjörnufræði, og hana má sjá í kaflanum "Hnettir himingeimsins" í Almanaki Háskólans frá 1966 til 2017. Í almanaki 2018 stóð hins vegar ný tala: 385000 km og í almanaki 2019 hefur talan verið hækkuð um einn. Belgíski reiknimeistarinn Jean Meeus, sem um árabil hefur tímasett stjörnumyrkva fyrir Almanak Háskólans, hefur sýnt fram á það að fyrri útreikningar hafi byggst á misskilningi. Jöfnur Browns gefa ekki fjarlægðina beint heldur svonefnda láhliðrun tungls á miðbaug (e. equatorial horizontal parallax). Menn hafa síðan tekið meðalgildi hliðrunarinnar og reiknað fjarlægð út frá því, en Meeus bendir á að sú aðferð gefi ekki meðalfjarlægðina þótt úr hverju stöku gildi megi reikna fjarlægðina fyrir viðkomandi gildi. Nýrri formúlur frönsku stjörnufræðinganna Michelle Chapront-Touzé og Jean Chapront gefa fjarlægð tungls beint, þannig að ekki þarf að nota hliðrun sem millistig. Rétt reiknað meðalgildi samkvæmt útreikningi Meeusar er 385000,5584 km, eða 385001 km ef talan er snyrt í heila kílómetra.

Meeus birti grein um þetta mál í tímariti Breska stjörnufræðifélagsins (Journal of the British Astronomical Association, febrúarhefti 2019), en hann hafði áður birt sams konar útreikninga í bók sinni Mathematical Astronomy Morsels (1997). 

Fjarlægð tungls reiknast venjulega frá jarðarmiðju. Séð frá yfirborði jarðar getur fjarlægðin verið minni, og fer það eftir því hve tunglið er hátt á lofti.. Ef það er nálægt hvirfildepli styttist fjarlægðin sem svarar geisla jarðar, um 6400 kílómetra. Við það stækkar sýndarþvermál tungls um 1,7%. Það gerist ekki á Íslandi að tungls sé svo hátt á lofti, svo að munurinn verður ekki svo mikill, mest 1,5%.

Þ.S. 14. apríl 2020.
  

Almanak Háskólans