Tunglmyrkvinn 3. - 4. mars  2007

Þegar þessi myrkvi hófst var skýjað í Reykjavík, en þegar á leið dreifðust skýin og tunglið kom í ljós. Engir tveir tunglmyrkvar eru eins, því að það daufa ljós sem lýsir tunglið upp þegar það á að heita almyrkvað er misjafnlega bjart (sjá skýringu neðar) og litur þess dálítið breytilegur þótt venjulega gefi það tunglinu rauðleitan blæ. Daufa ljósið er sólarljós sem farið hefur gegnum lofthjúp jarðar og dreifst inn í jarðskuggann. Séð frá tunglinu myndi lofthjúpurinn sjást eins og upplýst rönd kringum dimma jörðina. Röndin er venjulega rauðlituð af sömu ástæðu og sólin er oft rauðleit við sólarupprás og sólsetur þegar geislar hennar hafa farið langa leið gegnum lofthjúpinn. Í þetta sinn var almyrkvinn með dimmara móti, en tunglið greinilega rauðleitt, einkanlega þegar á leið. Fyrri myndina hér að neðan tók Snævarr Guðmundsson í Hafnarfirði kl. 23:57, stundarfjórðungi áður en almyrkvanum lauk. Myndin er tekin með 110 mm sjónauka af gerðinni Williams Optic. Stjarnan sem sést á myndinni er 59 Leonis, þ.e. ein af stjörnunum í stjörnumerki ljónsins. Tunglið gekk fyrir þessa stjörnu og skyggði á hana nokkru eftir að almyrkvanum lauk, en tungl var þá enn myrkvað að hluta. Rönd tunglsins þar sem stjarnan hvarf var þá upplýst af sól og mjög erfitt að sjá stjörnumyrkvann. Af þeirri ástæðu er þessa myrkva ekki getið í almanakinu í skránni á bls. 63.
 


Næstu mynd tók Sævar Helgi Bragason, skömmu eftir að almyrkvanum lauk, en tunglið var þá enn að mestu leyti í skugga. Stjarnan hægra megin á myndinni er 56 Leonis.



Almyrkvar eru misjafnlega langir. Fer það aðallega eftir því hvaða leið tunglið fer gegnum skugga jarðarinnar (breytileg fjarlægð tungls og sólar skiptir einnig máli). Ef tunglið fer nærri miðju skuggakeilunnar verður myrkvinn tiltölulega langur, en ef það heldur sig nærri rönd skuggans varir myrkvinn skemur. Í þetta sinn stóð myrkvinn í 1,2 klst. (74 mínútur) en lengst getur almyrkvi staðið í 1,8 stundir (107 mínútur).  Leið tunglsins gegnum skuggann hefur jafnframt áhrif á það hve dimmt tunglið verður; það verður þeim mun dekkra sem það fer nær miðju skuggans. Skýjafar við rönd jarðar frá tunglinu séð hefur einnig áhrif á það hve mikið sólarljós dreifist inn í skuggann. Loks geta eldgos haft veruleg áhrif ef mikið af fíngerðri ösku kemst upp í háloftin og deyfir sólarljósið á leið þess inn í skuggann. Eftir eldgosið mikla í fjallinu Pinatubo á Filippseyjum árið 1991 hélst svifmökkur í háloftunum í marga mánuði. Fyrsti almyrkvi á tungli eftir það eldgos var í desember 1992. Sá myrkvi var svo dimmur að tunglið sást varla, og var eldgosinu kennt um.

Um tíðni tunglmyrkva vísast til annarrar greinar á þessu vefsetri.  

 

Þ.S. 4.3. 2007. Viðbót 5.3. 2007 og 10.3. 2007

Almanak Háskólans