Forsíða


Myrkvastjarnan Algol  

    Síðan 1973 hefur birst í almanakinu tafla sem sýnir hvenær stjarnan Algol myrkvast. Þótt bilið milli myrkvanna sé býsna stöðugt,  2 dagar 20 klukkustundir og 49 mínútur, breytist það örlítið með tímanum og getur því þurft að endurskoða spárnar.  Í almanakinu var í fyrstu miðað við athugun sem gerð var í St. Andrews í Skotlandi hinn 16. febrúar 1971 og lýst í árlegri handbók breska stjörnuskoðunarfélagsins (British Astronomical Association, BAA)  Reiknað var með umferðartímanum 2,867318 dagar (2d 20t 48m 56,3s). Árið 2004 var umferðartíminn endurskoðaður með hliðsjón af nýjum upplýsingum í  bandaríska tímaritinu Sky&Telescope og settur 2,867321 dagar eða 2d 20t 48m 56,5s. Þótt munurinn virðist lítill, safnast hann í hálfa mínútu á ári og samtals í 19 mínútur á þeim tíma sem liðinn var frá viðmiðunarmyrkvanum 1971. Þótt Sky&Telescope noti annan upphafspunkt hefur samræmið milli almanaksins og Sky&Telescope verið ágætt síðustu árin. Í þessu sambandi er vert að geta þess að upphafstími og umferðartími miðast við sólina sem athugunarstað. Séð frá jörð þarf að leiðrétta spárnar vegna þess að Algol er ýmist nær eða fjær eftir því hvar jörðin er stödd á braut sinni um sólu. Þessi ljóstímaleiðrétting getur  numið tæpum 8 mínútum í hvora átt.

    Árið 2009 varð vart við verulegt misræmi (um 40 mínútur) milli spátíma Sky&Telescope og handbókar BAA. Eftirgrennslan leiddi í ljós að spár BAA eru byggðar á gögnum Suhora stjörnustöðvarinnar í Póllandi, sem sérhæfir sig í athugunum á breytistjörnum. Að beiðni undirritaðs gerði Snævarr Guðmundsson stjörnuáhugamaður mælingar á birtustigi Algol aðfaranótt 26. febrúar s.l. og notaði við það sérhæfðan ljósmæli sem tengdur var við sjónauka. Samkvæmt almanakinu átti hámyrkvinn að vera kl. 03:15. Sky&Telescope gaf upp tímann 03:16 en spátími Suhora var 03:54 miðað við athugun frá sól. Leiðrétting fyrir ljóstíma þennan dag er aðeins tvær mínútur sem hliðrar pólsku spánni til 03:56. Mælingar Snævars bentu til þess að hámyrkvinn hefði verið á bilinu 03:50 til 04:05. Þetta kemur heim við pólsku spána, en hvorki við spá almanaksins né spá Sky&Telescope. Skýrslu Snævars um mælingarnar má sjá hér.

    Með hliðsjón af þessu var spátaflan fyrir 2009 endurskoðuð (sjá hér) Munurinn á tímunum í þessari nýju töflu og þeirri sem birt var í almanakinu er 40 mínútur í byrjun árs og 47 mínútur í árslok. Í þetta sinn hefur verið gengið út frá byrjunartímanum 13. ágúst 2002 kl. 15:38:53 og umferðartímanum 2d 20t 48m 59,9s. Er það í samræmi við þær upplýsingar sem gefnar eru á vefsíðu Suhora stjörnustöðvarinnar sem rekin er af stjörnufræðideild háskólans í Krakov í Póllandi:

http://www.as.up.krakow.pl/minicalc/PERBETA.HTM

Á vefsíðu þessari birtast stöðugt spár fyrir nokkra daga í senn. Athygli skal vakin á því að tímarnir sem þar eru sýndir miðast við sól en ekki jörð. Getur því orðið allt að 7 mínútna munur á þessum tímum og þeim sem birtast í þeirri töflu sem reiknuð er fyrir almanakið, því að þar er miðað við myrkva eins og þeir sjást frá jörð.

    Algol er tvístirni þar sem stjörnurnar snúast hvor um aðra. Í hverri umferð verða tveir myrkvar, annar mjög áberandi, hinn smávægilegur. Aðalmyrkvinn verður þegar bjartari stjarnan (Algol A) gengur bak við þá daufari (Algol B) frá jörðu séð, en minni myrkvi  verður þegar daufari stjarnan gengur bak við þá bjartari. Aðalmyrkvinn stendur í meira en níu klukkustundir, en áberandi er hann ekki nema í fjórar stundir eða svo. Algol A er um þrisvar sinnum stærri en sólin að þvermáli og hundrað sinnum ljósmeiri. Algol B er stærri um sig en Algol A, en efnisminni og þrítugfalt daufari. Er talið að hún hafi með tímanum misst mikið af efni sínu til Algol A, en bilið milli stjarnanna er mjög lítið, aðeins 1/15 af fjarlægðinni milli jarðar og sólar. Þriðja stjarnan, Algol C, gengur svo um hinar tvær í fjarlægð sem er nálega þreföld fjarlægðin milli jarðar og sólar, og er umferðartíminn tæp tvö ár (1,86 ár).  Þótt Algol C sé ívið bjartari en Algol B, fannst hún ekki í sjónaukum heldur kom tilvist hennar fram í reglubundnum breytingum á litrófi og myrkvatímum Algol. Áhrifin á myrkvatímana nema allt að 5 mínútum. 

    Algol er í nærfellt 100 ljósára fjarlægð.  Hún er ein nálægasta myrkvastjarnan og jafnframt sú þekktasta. Ítalski stjörnufræðingurinn Montanari uppgötvaði birtubreytileika hennar árið 1667 eða þar um bil, en það var ekki fyrr en árið 1782 að Englendingurinn John Goodricke uppgötvaði hve reglubundnir myrkvarnir voru og setti fram þá skýringu sem rétt reyndist. Nafn stjörnunnar er arabískt, stytting úr Al Ras al Ghul, sem merkir "höfuð ófreskjunnar",  heimfært upp á skrímslið Medúsu í grískri goðafræði. Nafnið gæti bent til þess að mönnum hafi snemma verið kunnugt um breytileika stjörnunnar, en engar heimildir eru um slíkt.

    Á vefsíðu Suhora stjörnustöðvarinnar er línurit sem sýnir hvernig umferðartími Algol hefur breyst frá því að skipulegar mælingar hófust á 18. öld. Línuritið er sýnt hér og bætt við það skýringum. Á línuritinu kemur fram að frá 1775 til 1835  var umferðartíminn að lengjast og myrkvatímum seinkaði. Síðan fór umferðartíminn að styttast, fram til 1920 eða svo, en hefur svo verið að lengjast aftur. Fullnægjandi skýring á þessum breytingum hefur ekki fengist. 
-----------------------------
    Viðbót 13. október 2009. Ábending um hugsanlega skekkju í útreikningi á myrkvum Algol var send til ritstjórnar Sky&Telescope. Skeyti hefur nú borist þar sem ábendingin er þökkuð. Tímar Algolmyrkva hafa nú verið leiðréttir á vefsíðu tímaritsins og verða væntanlega leiðréttir í prentuðu útgáfunni innan tíðar. Munurinn á vefsíðutímum Sky&Telescope og leiðréttri töflu Almanaks Háskólans er nú aðeins þjár mínútur.
-----------------------------
    Viðbót 6. nóvember 2009. Desemberhefti Sky&Telescope er nú komið út. Þar hafa orðið þau leiðu mistök að taflan um myrkva Algol er ekki sú rétta, heldur er þar endurbirt taflan fyrir október 2009. Aðeins yfirskriftinni hefur verið breytt. Ritstjóra tímaritsins hefur verið gert viðvart og hann hefur boðað leiðréttingu. 
-----------------------------
    Viðbót 1. febrúar 2013. Suhora stjörnustöðin í Póllandi hefur nú endurmetið umferðartíma Algol og telst hann nú 2d 20h 48m 59,6s. Þessi breyting hefur verið tekin upp í Almanaki Háskólans og leiðir til tæplega 6 mínútna flýtingar í myrkvaspánni.
------------------------------
    Viðbót 28. mars 2016.  Árið 2015 varð stökkbreyting í spám Sky&Telescope. Frávikið frá spám Suhora breyttist úr 12 mínútum í 106 mínútur. Aðspurðir sögðu ritstjórar tímaritisins að þetta væri gert samkvæmt upplýsingum frá Félagi bandarískra breytistjörnuathugenda (American Association of Variable Star Observers, AAVSO). Haft var samband við Jerzy Kreiner, umsjónarmann vefsíðu Suhora. Kreiner upplýsti að spátímar Suhora væru í endurskoðun og lét í té nýjustu spáformúlu sem byggð væri á 29 athugunum frá 2009 til 2013. Gerð var prófun á þeirri formúlu með því að reikna út myrkvann 16. febrúar 2016. Í almanakinu var því spáð að hámyrkvinn yrði kl. 08:46. Hin nýja formúla Suhora gaf tímann 08:42, svo að ekki munar þar miklu.  Sky&Telescope spáði hins vegar allt öðrum tíma: kl. 07:01.

Ákveðið var að biðja Snævarr Guðmundsson að kanna málið með tækjabúnaði sínum við Höfn í Hornafirði. Snævarr gerði röð ljósmælinga að kvöldi 18. mars 2016. Mælingunum er lýst í greinargerð Snævars sem hér fylgir. Niðurstaða Snævars var sú að hámyrkvinn hefði orðið kl. 21:36. Þarna munar sex mínútum frá spá Suhora, sem ekki er stórvægilegt þegar á það er litið að myrkvinn allur frá byrjun til enda tekur margar klukkustundir.

Tékkneskir áhugamenn um breytistjörnur halda úti vefsíðu undir nafninu Brno Regional Network of Observers (B.R.N.O.) Þeir hafa líka fylgst með Algol og spár þeirra eru lítið eitt frábrugðnar pólsku spánum. Þegar tékkneska formúlan var notuð til að spá fyrir um myrkvann 18. mars og leiðrétt um 4 mínútur vegna ljóstíma (sjá fyrr) fékkst nánast sama niðurstaða og Snævarr hafði fengið: 21:38. Við útreikninga á Algoltöflu fyrir almanakið 2017 var ákveðið að ganga út frá myrkvamælingu Snævars. Þá er það spurningin um umferðartímann. Á tékknesku vefsíðunni er reiknað með umferðartímanum  2d 20h 48m 56,8s en Suhora miðar við 2d 20h 48m 57,7s. Mismunurinn leiðir til fráviks sem vex um tvær mínútur á ári. Það er athyglisvert að formúlunum hefði borið saman árin 2012-2013. Það er einmitt á því tímaskeiði sem mælingar Suhora stóðu yfir. Gera má ráð fyrir að formúla Suhora hafi gefið réttar tölur fyrir það tímaskeið þótt smávegis skakki á þessu ári. Þetta bendir til þess að umferðartími B.R.N.O. sé nær lagi þar sem hann gefur réttan tíma í báðum tilvikum og var ákveðið að nota hann áfram íslenska almanakinu.

Snævarr fylgdist næst með myrkva 29. desember 2017. Komst hann að þeirri niðurstöðu að hann hefði orðið kl. 18:45 en ekki 18:37 eins og stóð í almanakinu. Þetta varð til þess að tímunum var seinkað um 8 mínútur í almanakstöflunni fyrir 2019.

Enn mældi Snævarr myrkva 17. nóvember 2019. Sá reyndist 18 mínútur á eftir spánni. Ákveðið var að leiðrétta sem þessu næmi í töflu fyrir almanakið 2021. Í útreikningnum er enn stuðst við umferðartíma B.R.N.O. sem er óbreyttur á þeirra vefsíðu. Til álita kemur að breyta umferðartímanum ef mælingar sýna áfram seinkun miðað við spána.

   
Þ.S. 2009.  Síðasta viðbót í febrúar 2020.

Almanak Háskólans