Loftsteinninn 1. ágúst 1976  

    Að kvöldi 1. ágúst 1976 var bjartviðri víðast hvar á landinu. Þetta var um verslunarmannahelgi og fjöldi fólks á ferð. Því voru margir sem sáu þann mikla loftstein sem féll þetta kvöld, og lýsingar bárust úr flestum landshlutum, þar á meðal  frá Hornafirði, Hornbjargi, Vestmannaeyjum, Grindavík, Grímsey, Flatey, Reykjavík, Breiðdal, Hnífsdal og Gjögri. Slóðin var ljósmynduð frá mörgum stöðum. Hún sást sem glitský langt fram á nótt. Myndir og frásagnir benda til að steinninn hafi fallið 170 km norður af Skagatá, nálægt 67,6°N, 20,7°V. Þungar drunur heyrðust nokkrum mínútum eftir fallið, á Skaga, Gjögri og Hornbjargi. Þær komu fram á jarðskjálftamæli Raunvísindastofnunar Háskólans á Hrauni kl. 22:43:30, þ.e. 10,5 mín eftir fallið. Reiknuð fjarlægð frá Hrauni skv. því er 198 km (m.v. meðalhljóðhraðann 315 m/s), en út frá ljósmyndum af slóðinni reiknast fjarlægðin 168 km. Steinninn hefur komið inn í gufuhvolfið norður af Húnaflóa, stefnt bratt niður til norðausturs og hugsanlega fallið í sjó. Hann virðist hafa gengið um sólu í svipaða stefnu og jörðin, en verið á leið inn fyrir jarðbrautina, orðið glóandi í 100 km hæð og horfið nálægt 20 km. Mælingar á myndum af slóðinni gefa hæðina 30-45 km séð frá Hornafirði í 420 km fjarlægð. Frásögn sjónarvottar þar af sýndarhæðinni í gráðum frá jökulbrún bendir til hæðarinnar 24 km. Athugun á Hnífsdal gefur hins vegar 36-50 km. Af athugunarstöðum hefur Hornbjarg verið næst staðnum þar sem steinninn féll, í 150 km fjarlægð. Sjónarvottum virtist steinninn auka hraðann, þótt það sé ekki sennilegt. Ferillinn endaði í blossa. Halli brautar frá lóðlínu áætlaður út frá slóð: 38°. Áætlaður upphafshalli 46°. Ferillinn hefur verið allur yfir sjó. Lauslega áætlað hefur þessi steinn verið um 2 metrar í þvermál og vegið 10 tonn.

Nokkrir áhugamenn tóku myndir af slóðinni sem steinninn skildi eftir sig í háloftunum.



Þessi mynd var tekin í Hnífsdal. Ljósmynd: Sigurður B. Jóhannesson

Þessa mynd tók Gunnar Tómasson, staddur í Kaldbaksvík á Ströndum, 2-3 mínútum eftir að loftsteinninn féll. Slóðin var þá lítið farin að dreifa sér.



Þessi mynd var tekin á Sauðárkróki. Nafn ljósmyndara hefur glatast.


 
Þorsteinn Gíslason tók þessa mynd á Höfn í Hornafirði 

    Síðastu myndirnar eru teknar rétt fyrir kl. 1 eftir miðnætti, meira en tveimur stundum eftir að steinninn féll. Þá hafa háloftavindar dreift slóðinni í allar áttir. Slóðin er í svo mikilli hæð að hún er lýst upp af sól þótt venjuleg ský, sem sjást neðst á myndinni, séu í skugga. Athuga ber að þessi mynd er tekin með 200 mm aðdráttarlinsu og sýnir aðeins lítið svæði á himninum, um 10° breitt, sem svarar til hnefabreiddar á útréttri hendi. Þetta sést með samanburði við myndina hér að neðan sem tekin er með 28 mm gleiðhornslinsu. Myndirnar tók Ágúst Ó. Sigurðsson, staddur í Grímsnesi.

Lýsingar af loftsteininum bárust frá 23 stöðum á landinu.

Til baka 

Þ.S. 23.10. 2009. Síðasta viðbót 24.4. 2014

Almanak Háskólans