Vígahnöttur í september

Margir urðu vitni að því þegar bjartur loftsteinn, svonefndur vígahnöttur, birtist yfir landinu að kvöldi 12. september 2017, kl. 22:48. Þetta var fyrsti vígahnötturinn sem spurnir fara af hérlendis á þessu ári, en í sumum árum hefur fjöldinn verið mun meiri eins og sést á meðfylgjandi línuriti sem nær yfir tímabilið 1976-2016. Þarna eru taldir allir loftsteinar sem hafa verið svo áberandi að fólk hefur haft samband við Veðurstofu Íslands, lögreglu eða fréttastofur.

Um loftsteininn 12. september er það að segja að hann sást víða að, og greinargóðar lýsingar fengust frá sjónarvottum í Reykjavík, á Þingvöllum og á Snæfellsnesi. Á Þingvöllum heyrðust drunur á að giska 5 mínútum síðar, sem myndi svara til 100 km fjarlægðar. Í Reykjavík náðust tvö myndskeið á snjallsíma, og voru þau sýnd á fréttamiðlum.  Á öðru myndskeiðinu (A), sem tekið var við Vogaskóla, sést ljósið í 7 sekúndur en á hinu (B) sem tekið var við Suðurhóla sést það í 9 sekúndur. Aðrar lýsingar benda til þess að ljósið hafi sést í 10-15 sekúndur, og getur það vel staðist, því að nokkrar sekúndur hafa áreiðanlega liðið frá því að loftsteinninn birtist þar til myndataka hófst.  Vettvangsathugun leiddi í ljós að ferill loftsteinsins sást ekki til enda á myndskeiðunum. Á myndskeiði A hvarf hann bak við tré, en á myndskeiði B hvarf hann bak við hús. Sjónarvottar á Þingvöllum og Snæfellsnesi sáu hins vegar ferilinn til enda. Af stefnunum má ráða að steinninn hafi fallið yfir sjó norðan við Tjörnes. Þetta er þó engan veginn örugg staðsetning.

Lýsingar, svo og myndskeið, benda til þess að steinninn hafi brotnað upp og brot úr honum fylgt í kjölfar hans.

Myndskeiðin sýna að halli ferilsins frá Reykjavík séð var um 30° og hreyfingin nam 3° á sekúndu. Á myndskeiði A virtist ljósið dofna af og til, en athugun á vettvangi sýndi að það stafaði af því að loftsteinninn hafði horfið bak við tré. Á sama myndskeiði sést stjarnan Kapella, og af henni má ráða að steinninn hafi síðast sést í stefnu 40° frá norðri, 6° frá sjóndeildarhring. Miðað við áætlaða fjarlægð (400 km) hefur steinninn horfið innan við 40 km frá jörðu. Þessi tala er þó óvissu háð á sama hátt og staðsetningin.

Rétt er að ráðleggja þeim sem verða vitni að atburði sem þessum, að hafa samband við Veðurstofu, þar sem ávallt er fólk á vakt, og tilgreina nafn og símanúmer þannig að hægt sé að hafa samband við sjónarvottinn og fá nánari upplýsingar.

Þ.S. 7. október 2017  

Almanak Háskólans