Venus sem morgunstjarna

    Þá daga sem veður hefur leyft á þessu ári, hefur Venus sést sem morgunstjarna, allt frá miðjum janúar, og mun hún væntanlega sjást fram í apríl. Þetta má ráða af töflum á bls. 7, 11 og 15 í almanakinu, svo og af teikningu á bls 65, en þess er ekki getið í textanum á bls. 66 þótt svo ætti að vera. Venus er lágt á lofti á þessum tíma þó að hún sé langt í vestur frá sól. Frá Reykjavík séð komst hún hæst 5° yfir sjónbaug í suðaustri frá Reykjavík í birtingu. Þeirri hæð náði hún seint í janúar og fram í miðjan febrúar. Eftir miðjan marsmánuð kemur hún ekki upp fyrr en eftir að bjart er orðið, en vegna þess hve hún er skær, sést hún í rökkrinu milli birtingar og sólarupprásar.

Þ.S. 3.3. 2006.

Almanak Háskólans