Tunglmyrkvinn aðfaranótt 21. janúar
 
Í Almanaki Háskólans fyrir árið 2000 segir svo um þennan myrkva:

"Tungl er hátt á suðurhimni í Reykjavík þegar daufur hálfskugginn tekur að færast yfir það kl. 02:03. Myrkvans gætir þó ekki að ráði fyrr en tungl snertir alskuggann, kl. 03:01. Tunglið er almyrkvað frá kl. 04:05 til 05:22. Miður myrkvi er kl. 04:44. Tungl er laust við alskuggann kl. 06:25 og við hálfskuggann kl. 07:24, en þá er það í vestri frá Reykjavík séð."

Hámyrkvinn sást í Reykjavík þrátt fyrir óhagstætt veður, og var greinilegt að tungl var sunnan (neðan) skuggamiðjunnar því að það var dekkra norðan megin (að ofanverðu). Tunglið var dálítið rauðleitt eins og algengt er í myrkvum. Skýringin er sú, að það litla sólarljós sem nær að dreifast inn í jarðskuggann, hefur farið gegnum lofthjúp jarðar við rönd hennar frá tunglinu séð og roðnað við það líkt og gerist við sólsetur á jörðinni.

Í útbreiddu tímariti sem gefið er út hér á landi er myndskreytt lýsing á þessum myrkva, en þar hafa því miður slæðst inn allmargar villur. Þar stendur til dæmis að þessi myrkvi sé óvenju langur því að tunglið fari mjög nálægt miðdepli jarðskuggans. Þessi lýsing á við annan myrkva sem verður 16. júlí og sést ekki hér á landi. Sá myrkvi verður hinn lengsti á öldinni og verður tunglið almyrkvað í 1 klst. og 47 mínútur. Aðfaranótt 21. janúar var tunglið hins vegar almyrkvað í 1 stund og 17 mínútur, sbr. tímatölurnar hér að ofan.

Í fyrrnefndri tímaritsgrein er ruglað saman hálfskugga og alskugga jarðar. Hálfskugginn er afar ógreinilegur svo að flestum þykir sem myrkvinn hefjist ekki fyrr en tunglið gengur inn í alskuggann. Er þá talað um deildarmyrkva uns tunglið er almyrkvað.

Munur hálfskugga og alskugga skilst best ef við hugsum okkur að við séum stödd á tunglinu þegar myrkvinn verður. Séð frá tunglinu verður sólmyrkvi, því að jörðin sést ganga fyrir sól og hylja hana. Meðan jörðin hefur ekki hulið sólina algjörlega, er athugandinn staddur í hálfskugganum. Þegar sólin hverfur sjónum, er athugandinn kominn inn í alskuggann.

Í umræddu tímariti eru taldir upp fjórir tunglmyrkvar sem verða muni á næsta ári (2001). Dagsetningarnar eiga hins vegar við sólmyrkva á þessu ári (2000), en enginn þeirra sést frá Íslandi. Næsti almyrkvi á tungli sem sjást mun hér á landi (ef veður leyfir) verður 9. janúar 2001. Tungl sást síðast almyrkvað hérlendis árið 1996.

.S. 21. jan. 2000