Tímakort

   Í Almanaki Háskólans 1968 birtist í fyrsta sinn kort sem sýndi skiptingu jarðar í tímabelti. Þetta kort hefur fylgt almanakinu á hverju ári síðan, með nauðsynlegum lagfæringum þegar tímareikningur hefur breyst í öðrum löndum. Í upphafi var markmiðið að kortið yrði hið nákvæmasta sem völ væri á, og er ekki vitað að önnur kort hérlendis eða erlendis, hafi verið jafn rétt á þeim tíma. Þetta var fyrir daga Veraldarvefjarins, þegar ekki var svo auðhlaupið að fá upplýsingar um tímareikning í öðrum löndum. Oft var eina ráðið að nota símann, og var m.a. hringt til staða á Grænlandi, til Aleúteyja og Nepal. Í því sambandi er hvað minnisstæðast að stjórnvöld í Danmörku reyndust ekki hafa réttar upplýsingar um það hvernig klukkur voru stilltar á Grænlandi. Í seinni tíð hefur verið leitað til bresku almanaksskrifstofunnar sem gefur út eigið kort og skrár um tíma í öllum löndum. Þaðan hafa á hverju ári fengist mjög gagnlegar upplýsingar, en stöku sinnum hafa gögn sem Almanak Háskólans hefur fengið úr öðrum áttum reynst réttari og verið notuð til að leiðrétta breska kortið.

    Á síðustu árum hafa komið fram erlendar vefsíður með hliðstæðum kortum, og sumar þeirra eru vandaðar svo að ekki verður lengur fullyrt að Almanak Háskólans hafi sérstöðu hvað nákvæmni snertir. Hér skal bent á eftirtektarverða síðu: www.worldtimezone.com. Höfundurinn mun vera maður að nafni Alexander Krivenyshev og vera rússneskur, frá borginni Chita í Síberíu. Alexander er sagður haffræðingur og veðurfræðingur og býr nú í Guttenberg í New Jersey í Bandaríkjunum. Þótt fæðingarborg Alexanders sé ekki stórborg (íbúafjöldinn er  rúm 300 þúsund) er hún sýnd á tímakortum hans, til dæmis þessu ágæta korti sem sýnir hvar í heiminum klukkunni er flýtt á sumrin: www.worldtimezone.com/daylight.html. Á kortinu eru þau svæði merkt með gulum lit á norðurhveli jarðar, en grænum á suðurhveli.

Þ.S. 10.2. 2012

  Almanak Háskólans