Orðaskrá úr stjörnufræði

Formáli

    Orðanefnd Stjarnvísindafélags Íslands var stofnuð í desember 1990.  Nefndarmenn voru lengst af þrír: Þorsteinn Sæmundsson (formaður), Guðmundur Arnlaugsson og Gunnlaugur Björnsson. Í upphafi tóku fleiri félagsmenn þátt í starfinu. Má þar nefna Einar H. Guðmundsson, Einar Júlíusson, Guðmund G. Bjarnason, Karl Jósafatsson og Þóri Sigurðsson. Afrakstur nefndarstarfsins kom út í bókarformi hjá Háskólaútgáfunni sumarið 1996. Bókin geymdi þýðingar og skilgreiningar á rúmlega tvö þúsund hugtökum. Í nóvember 1996 lést einn nefndarmanna, Guðmundur Arnlaugsson. Eftir það sáu þeir Þorsteinn og Gunnlaugur um að tölvutaka orðaskrána og koma henni í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem opnaður var árið 1997. Nutu þeir þar góðrar aðstoðar Ágústu Þorbergsdóttur, starfsmanns málstöðvarinnar.. Á árinu 2001 var unnið að endurskoðun stjörnuorðaskrárinnar og stækkun hennar. Að þeim áfanga loknum taldi skráin 2261 hugtak. Síðan hefur starfið að mestu leyti legið niðri. Nú hefur verið ákveðið að flytja skrána á vefsetur Almanaks Háskólans þar sem viðmót hennar verður að ýmsu leyti aðgengilegra en áður og auðveldara að stækka hana og lagfæra. Skráin er í tveimur hlutum: ensk-íslensk orðaskrá og íslensk-ensk orðaskrá.

Við val enskra orða var lögð til grundvallar bókin A Dictionary of Astronomy (ritstjóri Valerie Illingworth, The Macmillan Press, 1979) og síðari útgáfa sömu bókar sem ber heitið Collins Dictionary of Astronomy (Harper Collins, 1994). Þá var orðtekin bókin A Concise Dictionary of Astronomy eftir Jacqueline Mitton (Oxford University Press, 1991). Fjöldamörg önnur rit voru höfð til hliðsjónar, en hér verða aðeins nefnd tvö: Glossary of Astronomy and Astrophysics eftir Jeanne Hopkins (The University of Chicago Press, 1980) og A Dictionary of Astronomy eftir Robert Maddison (Hamlyn, 1980).

Við val á íslenskum þýðingum var meðal annars stuðst við bókina Stjörnufræði - Rímfræði eftir Þorstein Sæmundsson (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1972) og Orðaskrá um eðlisfræði, stjörnufræði og skyldar greinar sem orðanefnd Eðlisfræðifélags Íslands gaf út sem drög árið  1985. Ritstjóri þeirrar orðaskrár, Þorsteinn Vilhjálmsson, veitti góðfúslega aðgang að stjörnufræðihluta næstu útgáfu, sem bar heitið Orðaskrá um eðlisfræði og skyldar greinar  (1996). Reynt var að nýta sem flest orð úr þessum ritum, en miklu þurfti þó við að bæta.

Oft þóttu tvö eða fleiri orð koma til greina við þýðingu á hugtaki. Í þeim tilvikum var ákveðið að gefa lesandanum kost á að velja milli þýðinga fremur en að kveða upp einhvern salomónsdóm. Skoðun nefndarinnar var, að reynslan væri besti mælikvarðinn á það, hvaða orð eigi að halda í og hverjum megi sleppa. Einnig gæti verið æskilegt að eiga fleiri kosta völ við þýðingu á tilteknu orði.

Upphaflega var ætlunin að þessi orðaskrá yrði einungis þýðingalisti án skýringa. Nefndinni varð hins vegar fljótlega ljós nauðsyn þess að skýra að nokkru hvaða hugsun fælist á bak við orðin. Þær stuttu skýringar sem fylgja ensk-íslenska kaflanum eru þó sjaldnast tæmandi skilgreiningar. Til þess þyrftu þær að vera mun ítarlegri, en vafasamt er að hinn almenni lesandi hefði meira gagn af þeim lestri.

Sú stefna orðanefndar, að hlífa lesandanum sem mest við  tilvísunum milli orða,  leiðir til þess að sami textinn er stundum endurtekinn á tveimur eða fleiri stöðum.

Þegar mannsnafn kemur fyrir í textanum, er að jafnaði tiltekið þjóðerni mannsins, fæðingarár og dánarár, ef við á. Oft reyndist erfitt að hafa upp á þessum upplýsingum, og tókst það ekki alltaf.  Ef stakt ártal er tilgreint og það merkt með stjörnu, er átt við atburð á borð við útgáfu bókar eða uppgötvun einhvers fyrirbæris.

Baldur heitinn Jónsson, þáverandi forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar, las ensk-íslenska hluta bókartextans í handriti árið 1996 og veitti margar gagnlegar ábendingar. Einnig fór Ari Páll Kristinsson, síðar forstöðumaður málstöðvarinnar, yfir hluta handritsins.

(Sett á vefsetur Almanaks Háskólans í febrúar 2012. Þ.S.)  

 

Almanak Háskólans