Stjörnumerki og stjörnuspámerki
(Um framsókn vorpunktsins o.fl.)

Frá örófi alda hafa menn horft á stjörnuhimininn og þóst sjá þar myndir af dýrum, goðsagnapersónum og hlutum ýmiss konar. Þekktust eru vafalaust stjörnumerki þau sem sólin gengur um og kölluð hafa verið dýrahringur. Nafnið er þýðing á forngríska heitinu zoidiakos sem á latínu varð zodiacus. Babýlóníumenn munu hafa skipt dýrahringnum í 12 merki jafnstór á 6. öld fyrir Krist. Merkin eru þessi (latnesk heiti í svigum): hrúturinn (Aries), nautið (Taurus), tvíburarnir (Gemini), krabbinn (Cancer), ljónið (Leo), mærin (Virgo), vogin (Libra), sporðdrekinn (Scorpio), bogmaðurinn (Sagittarius), steingeitin (Capricornus), vatnsberinn (Aquarius) og fiskarnir (Pisces). Hagyrtur maður hefur raðað nöfnunum í vísur:

                                     Hrútur, tarfur, tvíburar,
                                     teljum þar til krabba og ljón,
                                     mey og vog þá vitum þar
                                     vorri birtist dreki sjón.

                                     Bogmaður, steingeit standa næst,
                                     stika vatnsberi og fiskar nær,
                                     svo eru merkin sólar læst
                                     í samhendur þessar litlar tvær.

Vísurnar birtust í grein um tunglið eftir Trausta Einarsson stjörnufræðing í Náttúrufræðingnum árið 1937. Trausti getur ekki heimildar, en orðalagið bendir til þess að vísurnar séu gamlar.   

Englendingar eiga hliðstæðan kveðskap eftir Isaac Watts (1674-1748):

                                    The ram, the bull, the heavenly twins
                                    and next the crab, the lion shines
                                    The virgin and the scales.

                                    The scorpion archer and sea-goat
                                    The man who pours the water out
                                    And fishes with glittering tails.

Það að merkin eru tólf bendir til þess að þau hafi frá upphafi tengst mánuðunum. Þegar þeim var skipað niður gekk sól í hrútsmerki um vorjafndægur og síðan í hvert hinna merkjanna með mánaðar millibili. Í stjörnuspáfræði hafa menn haldið sig við fastar dagsetningar nokkurn veginn sem hér segir:

                             Hrútsmerki 21. mars - 20. apríl
                             Nautsmerki 21. apríl - 21. maí
                             Tvíburamerki 22. maí - 21. júní
                             Krabbamerki 22. júní - 22. júlí
                             Ljónsmerki 23. júlí - 22. ágúst
                             Meyjarmerki 23. ágúst - 23. september
                             Vogarmerki 24. september - 23. október
                             Sporðdrekamerki 24. október - 22. nóv.  
                             Bogmannsmerki  23. nóvember - 21. des.
                             Steingeitarmerki 22. desember - 20. janúar
                             Vatnsberamerki 21. janúar - 19. febrúar
                             Fiskamerki 20. febrúar - 20. mars

Vegna pólveltu jarðar, sem veldur framsókn vorpunktsins (sjá neðar), er sólin ekki lengur í hrútsmerki um vorjafndægur heldur er hún einu merki vestar á himni, þ.e. í fiskamerki. Pólveltan tekur tæplega 26 þúsund ár, og því ættu dagsetningarnar hér að ofan að breytast um einn dag á hverjum 70 árum að meðaltali. Stjörnuspáfræðin tekur ekki tillit til þessa, og heitið "stjörnumerki" er því villandi þegar það er haft um þau merki sem notuð eru í spáfræðinni og eru bundin við mánuðina en ekki stjörnurnar á himninum. Orðið "stjörnuspámerki" hefur stundum verið notað, en erfitt er að breyta þeirri hefð sem viðgengist hefur í íslensku, að kalla hvort tveggja stjörnumerki. Englendingar gera skýran greinarmun á "sign" (þ.e. spámerki)  og "constellation" (stjörnumerki). Þótt stjörnufræðingar vilji sverja spámerkin af sér og ekkert af þeim vita, er skylt að geta þess, að allt fram á 18. öld notuðu stjörnufræðingar þessi merki stundum til að tilgreina stöðu reikistjarnanna. Voru þá skilgreind tólf 30 gráðu breið svæði talin frá vorpunkti himins, þótt nöfnin væru ekki í samræmi við hin eiginlegu stjörnumerki á hverju svæði fyrir sig.

En þá er ósvarað þeirri spurningu hvernig stjörnumerkin eru skilgreind í nútíma stjörnufræði. Árið 1928 lagði Alþjóðasamband stjarnfræðinga línurnar, ef svo mætti segja, um mörk stjörnumerkja á himninum öllum. Alls eru merkin 88 talsins. Um helmingur þeirra var þekktur úr forngrískum heimildum, sem aftur áttu rætur að rekja til Babýlóníumanna, Assýringa og Forn-Egypta. Þessi merki voru af eðlilegum ástæðum á norðurhveli og skammt suður fyrir miðbaug himins, en þegar evrópskir sæfarendur kynntust suðurhimninum bættust mörg ný stjörnumerki við. Ákveðið var að útlínur merkja skyldu fylgja lengdarbaugum og breiddarbaugum á himni, í því hnitakerfi sem í gildi var í ársbyrjun árið 1875. Hnitin breytast smám saman með tímanum vegna pólveltu jarðar, og því er nauðsynlegt að tilgreina viðmiðunarárið. Á stöku stað er markalína hvorki lengdar- né breiddarbaugur heldur hluti úr stórbaug. Reynt var að hafa mörkin þannig að þau væru í sem bestu samræmi við þau stjörnukort sem þegar voru í almennri notkun. Í skrám um breytistjörnur, til dæmis,  hafði stjörnum verið gefin nöfn sem tengdust stjörnumerkjunum, og var reynt að sjá til þess að þessar stjörnur lentu ekki í röngu merki. Þó finnast dæmi þess að stjörnur eru í öðru stjörnumerki en nafn þeirra bendir til. Fastastjörnur geta færst úr einu merki í annað vegna eiginhreyfingar, en það gerist yfirleitt ekki nema á afar löngum tíma, tugþúsundum ára. Jafnframt mun útlit stjörnumerkjanna breytast svo að greinilegt verði með berum augum, ef einhver verður þá til frásagnar (sbr. mynd neðst).

Þess má geta, að stjörnufræðingar telja 13 merki fylgja sólbraut á himninum. Það merki sem bætist við stjörnuspámerkin tólf heitir naðurvaldi (Ophiuchus) og liggur milli sporðdreka og bogmanns. Sem stendur gengur sólin í dýrahringsmerkin þrettán sem hér segir:

                             Hrútsmerki 18. apríl - 13. maí
                             Nautsmerki 14. maí  - 20 júní
                             Tvíburamerki 21. júní - 19. júlí
                             Krabbamerki 20. júlí - 9. ágúst
                             Ljónsmerki 10. ágúst - 15. september
                             Meyjarmerki 16. september - 30. október
                             Vogarmerki 31. október - 22. nóvember
                             Sporðdrekamerki 23. nóvember - 29. nóv.
                             Naðurvaldamerki 30. nóvember - 17. des.  
                             Bogmannsmerki  18. desember - 18. janúar
                             Steingeitarmerki 19. janúar - 15. febrúar
                             Vatnsberamerki 16. febrúar - 11. mars
                             Fiskamerki 12. mars - 17. apríl

Eins og fyrr er sagt breytast dagsetningarnar að meðaltali um einn dag á 70 árum; þær færast fram vegna framsóknar vorpunktsins, sem áður var nefnd. Heitið "framsókn" er íslenskun á erlenda orðinu "precession" og er eitt af mörgum góðum orðum í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar á Stjörnufræði Ursins (1842). Vorpunkturinn, sá staður þar sem sólin er stödd við vorjafndægur, færist smám saman til vesturs á himni miðað við fastastjörnurnar og kemur því fyrr í hádegisstað en hann ella myndi gera. Hann sækir með öðrum orðum fram, og af því er orðið framsókn leitt.

Jafnframt því að vorpunkturinn færist til, gerir haustpunkturinn það einnig, þ.e. sá staður meðal stjarnanna þar sem sólin er stödd við haustjafndægur. Í stjörnufræði er algengast að tala um framsókn jafndægranna (á ensku: precession of the equinoxes). Framsóknin hefur áhrif á hnit stjarnanna, en ekki afstöðu þeirra hverrar til annarra. Algengustu hnit sem notuð eru í stjörnufræði eru svonefnd miðbaugshnit. Þau miðast við miðbaug himins, sem er beint yfir miðbaug jarðar. Breidd stjarna reiknast frá miðbaug til norðurs og suðurs. Lengdin reiknast frá vorpunkti til austurs. Í einni pólsveiflu (á 26 þúsund árum) sveiflast breidd stjarna fram og aftur um rösklega 20 gráður í hvora átt. Lengd stjarna vex hins vegar jafnt og þétt um 360°.

Annað hnitakerfi eru sólbaugshnit. Í því kerfi reiknast breiddin frá sólbrautinni (sólbaug), ferli sem  sem sólin virðist færast eftir meðal fastastjarnanna. Sólbrautin er ekki óbreytanleg. Reikistjörnurnar hafa áhrif á braut jarðar um sólu og það hefur aftur áhrif á sýndargang sólar, sólbrautina. Brautin hallast til og frá um allt að 2° í hvora átt frá meðalstöðu. Sveiflutíminn er um 60 þúsund ár. Þetta hefur áhrif á breidd stjarna í sólbaugshnitakerfinu, en breytingin er hægfara og ekki sérlega mikil. Lengdin reiknast frá vorpunkti líkt og í fyrra kerfinu og vex því um 360° í hverri pólveltu. 


Þ.S. 19.3. 2019. Lagfært 24.2. 2022

Almanak Háskólans