Enn finnst tungl við Satúrnus  

Það telst varla til tíðinda lengur að nýtt tungl finnist við Satúrnus. Nýjasta tilkynningin af því tagi, sem birtist í dreifiskeyti frá Alþjóðasambandi stjarnfræðinga hinn 3. mars 2009, er þó að vissu leyti sérstæð. Í fyrsta lagi er hið nýfundna tungl hið minnsta sem vitað er um í sólkerfinu, aðeins  hálfur kílómetri í þvermál eftir birtunni að dæma. Í öðru lagi hefur þetta tungl þegar hlotið endanlegt nafn þótt önnur stærri tungl Satúrnusar búi enn við bráðabirgðanöfn. Sá sérstaki sómi stafar af því að tunglið er talið vera uppspretta ysta hrings Satúrnusar, G-hringsins, sem er afar daufur og sést ekki frá jörðu. Tunglið fannst á myndum sem teknar voru frá geimflauginni Cassini hinn 15. ágúst 2008. Síðan hefur það fundist á fleiri myndum, teknum bæði fyrir og eftir þann tíma. Tunglið fékk bráðabirgðaheitið S/2008 S1, en endanlegt nafn þess er Egeon (Aegeon) fengið úr grískri goðafræði. Þetta er 61. tunglið sem finnst við Satúrnus (sjá yfirlitið um tungl reikistjarnanna). Um hringa Satúrnusar má lesa hér.

Þ.S. 8. júní 2009.

Almanak Háskólans