Tungl Satúrnusar orðin 56 talsins  

Í júní 2006 tilkynntu bandarískir stjörnufræðingar að níu tungl hefðu fundist við reikistjörnuna Satúrnus til viðbótar við þau 47 sem þekkt voru. Tungl þessi hafa fengið bráðabirgðaheitin S2004/S19, og S2006/S1 til S2006/S8. Tungl þessi fundust á myndum sem teknar voru með stórum sjónauka á fjallinu Mauna Kea á Hawaii.  Öll eru tunglin smá, á að giska 6-8 km í þvermál. Þau ganga öfugan hring um reikistjörnuna og eru mjög langt frá henni; umferðartíminn er frá 2,4 upp í 3,6 ár (sjá yfirlit um tungl reikistjarnanna). 
 
Þ.S. 2. nóvember 2006.

Almanak Háskólans