Skyggnst í sögu almanaksins

eftir Þorgerði Sigurgeirsdóttur

(Grein þessi birtist í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1969. Sjį višbót ķ greininni "Eftirmįla")



Íslandsalmanakið

Íslandsalmanakið, sem oftast er kallað ,,litla almanakið" eða „háskólaalmanakið", kemur út í 133. sinn á þessu ári. Er það því elsta rit sem út er gefið hér á landi, að Skírni einum frátöldum, en hann hefur tíu ár umfram. Útgáfa Íslandsalmanaksins hefur lengi verið svo nátengd útgáfu Almanaks Þjóðvinafélagsins að ekki er óalgengt, að þessum ritum sé ruglað saman. Ætlun mín með þessum línum er að gera grein fyrir helstu atriðum úr sögu beggja ritanna, og mun ég þá fyrst ræða um það sem eldra er, Íslandsalmanakið.

Íslandsalmanakið, þótt gamalt sé, var ekki fyrsta tilraun til almanaksútgáfu á Íslandi. Íslendingar virðast snemma hafa fengið áhuga á útgáfu almanaka. Elsta íslenska almanakið sem vitað er um með vissu mun vera almanak Arngríms Jónssonar sem prentað var á Hólum 1597. Er eintak af því almanaki varðveitt í Landsbókasafninu. Þegar fram liðu stundir munu dönsk almanök hafa verið notuð hér töluvert, en að sjálfsögðu hafa þau ekki komið að fullum notum. Ýmsir framtakssamir Íslendingar urðu því til þess að ráðast í almanaksútgáfu um lengri eða skemmri tíma. Í Cornell safninu í Bandaríkjunum er til dæmis varðveitt handrit af almanaki frá 1800 til 1836, þó ekki samfellt. Hefur það almanak að mestu verið reiknað fyrir Eyjafjörð, en hluti af því er afrit af danska almanakinu.

Almanaksútgáfa þessi hefur ekki farið fram hjá ráðamönnum í Kaupmannahöfn. Hafnarháskóli hafði einkarétt á útgáfu almanaka á Íslandi, og hefur mönnum þar vafalaust ekki líkað að aðrir væru að fara inn á þeirra verksvið. Þann 3. febrúar 1836 er gefin út konungleg tilskipun þar sem við eru lagðar miklar sektir „ef nokkur yfirtreður það Kaupmannahafnar háskóla veitta einkaleyfi til almanaksins útgefningar, hvort heldur það er með í Ísland að innfæra eður þar að selja framandi almanök, eður með að prenta nokkurt almanak án háskólans leyfis...." eins og komist var að orði.

Nokkrum dögum síðar, hinn 13. febrúar 1836, er svo gefin út tilskipun um útgáfu á almanaki árlega á íslenskri tungu. Var þetta gert vegna tilmæla sem fram komu í bréfi frá rektor og prófessorum háskólans í Kaupmannahöfn, en bréfið var dagsett 5. febrúar. Ákveðið var að þetta almanak skyldi vera ein örk að stærð, og hafði háskólinn einkaleyfi á útgáfunni. Samning almanaksins var falin C. F. Olufsen prófessor, en Finnur Magnússon var fenginn til að þýða almanakið á íslensku og lagfæra eftir íslenskum háttum. Var þeim hvorum um sig greitt hundrað ríkisdala fyrir verkið.
 

saga1.jpg

 Úr handriti Finns Magnússonar að fyrsta Íslandsalmanakinu 1837


Fyrstu árgangar Íslandsalmanaksins, 1837-1860, voru í mjög litlu broti, og hafa þeir gengið undir nafninu „kubbarnir". Þessir árgangar eru svo til ófáanlegir. Íslandsalmanakið var mjög sniðið eftir danska almanakinu, bæði að útliti og efni. Danska almanakið hafði komið út óslitið frá 1584 og hafði upphaflega verið þýtt úr þýsku almanaki. Er ekki ótrúlegt að þaðan komi flest dýrlinganöfnin sem enn í dag fylla síður almanaksins. Að minnsta kosti eru flestir þessir dýrlingar óþekktir hér á landi fyrr og síðar.

Finnur Magnússon, sem í fyrstu sá um þýðingu almanaksins, lét setja inn ýmsar messur sem hér var haldið sérstaklega upp á, og enn fremur gamla misseristalið.

Almanakið vakti mikla athygli heima á Íslandi, og urðu margir til að skrifa Finni Magnússyni um útgáfuna. Í bréfi sem Björn Gunnlaugsson skrifar frá Bessastöðum 8. september 1836 segir m.a.: „Ég hef ekki orðið var við eða komið auga á nein lýti eða yfirsjón á því, en mér þykir það fróðlegt, sniðugt og conseqvent í sínu formi og innihaldi."

Þess má geta, að í almanakinu lét Finnur breyta til um fyrsta vetrardag, sem lengi hafði verið talinn bera upp á föstudag, en samkvæmt áreiðanlegri heimildum skyldi vera á laugardegi. Olli sú ráðstöfun nokkrum deilum. Fyrir utan dagatalið var í almanakinu reiknaður tími sólaruppkomu og sólarlags í Reykjavík á vikufresti. Þá var líka sagt til um kvartilaskipti tunglsins.

Árið 1849 tók Jón Sigurðsson við þýðingu almanaksins af Finni Magnússyni. Fram til þess tíma hafði almanakið verið prentað með gotnesku letri, en Jón lét taka upp latneskt letur og færði auk þess ýmislegt til betra máls.Þá var tekinn upp kafli sem hét „Yfirlit yfir sólkerfið", og stóð hann í almanakinu fram til 1912.

Árið 1861 verður veruleg breyting á útliti almanaksins. Er þá brotið stækkað og síðunum fjölgað í 24. Stækkun almanaksins var sýnilega gerð með hliðsjón af danska almanakinu, en brot þess hafði verið stækkað árið 1856. Um leið var tekin upp umgjörð sú sem enn prýðir forsíðu almanaksins, bæði þess íslenska og danska. Er hún mynduð úr stjörnumerkjum dýrahringsins ásamt árstíðamyndum Bertels Thorvaldsens. Ekki hefur mér tekist að fá vitneskju um hver teiknaði þessa umgjörð, en hún kom fyrst á forsíðu danska almanaksins 1856.

Við stækkun Íslandsalmanaksins 1861 bættist ýmislegt við af nýju efni. Má þar nefna kaflann ,,Jarðstjörnurnar" (nú ,,Reikistjörnurnar"), töflu um mismun á miðtíma og sóltíma og yfirlit yfir konungsættina í Danmörku. Síðastnefnda greinin var felld niður eftir lýðveldisstofnunina 1944, en sú ráðstöfun mun þá hafa sætt nokkurri gagnrýni af Dana hálfu. Flóðtöflur birtust fyrst í almanakinu 1904.

Eins og fyrr var getið sá Finnur Magnússon fyrst um þýðingu almanaksins, en síðan Jón Sigurðsson fram til 1880. Frá 1881 til 1888 sá Gísli Brynjólfsson um verkið, síðan Nikulás Runólfsson 1889-1898 og svo Valtýr Guðmundsson 1899-1910. Eftir það vantar upplýsingar um árin 1911-1922.
 

saga2.jpg

saga3.jpg

Samanburður á danska almanakinu og hinu íslenska fyrir og eftir stækkun brotsins


Með útkomu almanaks fyrir 1923 verða tímamót í sögu almanaksins því að þá færast útgáfa þess og útreikningur inn í landið. Með lögum nr. 25, 27. júní 1921, hafði Háskóla Íslands verið veitt einkaleyfi til útgáfu almanaka á Íslandi. Hið íslenska þjóðvinafélag keypti með samningi þetta einkaleyfi fyrir árið 1923 og fékk þá dr. Ólaf Daníelsson og Þorkel Þorkelsson cand. mag. til að taka að sér hina fræðilegu útreikninga. Þess má geta að árið 1914 hafði Þjóðvinafélagið gert tilraun til að fá almanakið reiknað hér, en þegar til kom vantaði nauðsynleg hjálpargögn svo að ekkert varð úr framkvæmdinni í það skiptið.

Þeir sem annast hafa útreikning almanaksins frá upphafi eru þessir:
 


 
1837-1856: C.F.R. Olufsen prófessor
1857: P. Pedersen prófessor
1858-1888: H.C.F.C. Schjellerup prófessor
1889-1913: C.F. Pechüle
1914-1922: Elis Strömgren prófessor
1923-1951: Ólafur Daníelsson dr. phil. og Þorkell Þorkelsson cand. mag.
1952-1955: Leifur Ásgeirsson prófessor og Trausti Einarsson prófessor
1956: Bjarni Jónsson prófessor og Trausti Einarsson prófessor
1957: Trausti Einarsson próf. og Guðmundur Arnlaugsson cand. mag.
1958-1963: Trausti Einarsson prófessor og Leifur Ásgeirsson prófessor
1964- : Trausti Einarsson prófessor og dr. Þorsteinn Sæmundsson

 
saga4.jpg Engin mynd til. Var andvígur myndatöku
C.F.R. Olufsen P. Pedersen

 
saga5.jpg saga6.jpg
H.C.F.C. Schjellerup C.F. Pechüle 

 
saga7.jpg saga8.jpg
Elis Strömgren Ólafur Daníelsson

 
saga9.jpg saga10.jpg
Þorkell Þorkelsson Leifur Ásgeirsson

 
saga11.jpg saga12.jpg
Trausti Einarsson Bjarni Jónsson

 
saga13.jpg saga14.jpg
Guðmundur Arnlaugsson Þorsteinn Sæmundsson

 
Frá 1923 og til 1965 hélst almanakið óbreytt að útliti og blaðsíðufjölda (24). Auk fastra þátta hafa við og við birst greinar um fræðileg og vísindaleg efni, einkum eftir 1952. Stuttar hafa þessar greinar orðið að vera, enda lítið rúm aflögu. Er óhætt að segja að hver síða hafí verið fullskipuð og vel það, og mun vandfundið tímarit sem hefur flutt jafnmikinn fróðleik á jafnfáum síðum.

Árið 1966 var almanakið stækkað að mun, eða upp í 32 síður. Það ár var tölva háskólans notuð í fyrsta sinn við hina stjörnufræðilegu útreikninga, og var þá unnt að birta sólargangstöflur fyrir sex staði á landinu. Einnig var bætt við kafla um hnetti himingeimsins, tímaeiningar o.fl.

Næsta ár, 1967, var almanakið enn aukið að efni og stækkað upp í 40 síður. Var það þá einnig innheft í kápu, en síðan 1923 hafði aðeins verið hægt að fá það óinnheft. Af nýju efni sem þarna kom til sögunnar má nefna kafla um mælieiningar, eðlisþyngd, bræðslumark og suðumark.

Árið 1968 var almanakið enn aukið og nú upp í 44 síður. Þá bættist m.a. við kafli um vegalengdir eftir þjóðvegum og kafli um tímaskiptingu jarðarinnar. 

Verð Íslandsalmanaksins var í fyrstu ákveðið 15 aurar (16 aurar innheft) og var það sama verð og á danska almanakinu sem var allmiklu stærra. Fljótlega var verðið þó fært niður í 10 og 11 aura og hélst þannig til 1920. 1921-22 er verðið 12 aurar, en 1923, þegar farið er að gefa almanakið út hér heima, hækkar verðið upp í 30 aura. Árið 1944 kostaði það 2 krónur en 1967 25 krónur. Má af þessu nokkuð marka gengisfall krónunnar.

Upplag Íslandsalmanaksins hefur alltaf verið stórt miðað við fólksfjölda, ekki síst áður fyrr þegar minna var um bókaútgáfu. Upplagið er nú um 10 þúsund eintök, og er það há tala þegar þess er gætt að lítið sem ekkert hefur verið gert til þess að auglýsa ritið.
 

Þjóðvinafélagsalmanakið

Árið 1871 var stofnað félag sem hlaut nafnið Hið íslenska þjóðvinafélag. Stofnendur voru 17 alþingismenn, og var markmiðið aðallega stjórnmálalegs eðlis. Ætlaði félagið að reyna með sameiginlegum kröftum að halda uppi landsréttindum og þjóðréttindum Íslendinga, efla samheldni og stuðla til framfara landsins og þjóðarinnar í öllum greinum.

Félagið hóf fljótlega að gefa út bækur, en bókaútgáfa varð með tímanum aðalverkefni þess. Fyrsta rit félagsins, Um bráðasóttina á Íslandi, kom út árið 1873.

Į fundi félagsins ķ Kaupmannahöfn 9. janśar 1874 kom til umręšu aš félagiš gęfi śt almanak, og varš žaš aš rįši. Undirstaša žess almanaks skyldi vera Ķslandsalmanak žaš sem hįskólinn ķ Kaupmannahöfn gaf śt, en viš žaš skyldi bętt öšru eins af smįritlingum sem gętu veriš til gagns og fróšleiks fyrir alžżšu manna. Žį var lįtiš skera ķ tré stimpil eša félagsmerki fyrir almanakiš. Ķ merkinu er valur sem er aš leggja til flugs, og į baugi sem hann situr į, stendur nafn félagsins ritaš. Tréstimpill žessi hefur varšveist fram į žennan dag. Merkiš stóš į forsķšu almanaksins fram til 1951. Það ár var tekið upp annað merki áþekkt en einfaldara, og stóð svo til 1967, en þá var upphaflega merkið tekið upp á nýjan leik. [Sjį nįnar ķ kaflanum Kįpusaga hér į eftir.]

Jón Sigurðsson varð fyrsti formaður Þjóðvinafélagsins, og virðist hann hafa séð að mestu leyti um almanakið meðan hann lifði, eða árgangana 1875-1880. Þó má gera ráð fyrir því að hann hafi notið einhverrar hjálpar síðustu árin, því að þá var hann orðinn mjög sjúkur.

Almanakið vakti strax mikla athygli og varð mjög útbreitt. Fyrsta árið var upplagið 2000 eintök en var stækkað upp í 2500 eintök strax á næsta ári. Jókst upplagið síðan ár frá ári. 1921 var það komið upp í 8000 eintök. Nú á síðari árum hefur almanakið ekki náð slíkri útbreiðslu, og var eintakafjöldinn ekki nema 5000 árið 1967.

Í bréfi sem Jón Sigurðsson ritaði fulltrúum félagsins 10. apríl 1874 segir svo: ,,.. .að þessu sinni eru almanökin ekki send til kaupmanna, nema þeirra, sem eru fulltrúar félagsins, til þess að keppa ekki við háskólann í Kaupmannahöfn um útsöluna ....". Það er því ekki víst nema hægt hefði verið að hafa upplagið ennþá stærra þegar í upphafi.

Meðal stofnenda Þjóðvinafélagsins var Tryggvi Gunnarsson. Þegar Jón Sigurðsson féll frá, varð Tryggvi forseti félagsins og féll þá jafnframt í hans hlut að sjá um almanakið. Í samfelld 30 ár annaðist hann ritstjórn almanaksins og aftur í 3 ár síðar. Tryggvi gekkst mikið upp í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, og er óhætt að segja að hann hafi unnið meira en nokkur annar maður fyrir Þjóðvinafélagið og almanak þess. Er það mikið og óeigingjarnt starf sem eftir hann liggur.

Tryggvi hafði vanalega meira efni til að setja í almanakið en hægt var að koma í það. Tók hann þá það ráð, árið 1893, að stækka almanakið um eina örk. Varð hann þá að hækka verðið úr 50 aurum í 65 aura. Afleiðingin varð sú að mun minna seldist af almanakinu en árin á undan. Varð því strax næsta ár að minnka almanakið aftur.

Frá 1875 til 1908 hélst ritið svo til óbreytt í verði, frá 35 upp í 50 aura. Síðan hefur það farið smáhækkandi. Árin 1920-1940 kostaði það 2 krónur, en 1968 var það komið upp í 75 krónur til félagsmanna.

Lengi framan af var Þjóðvinafélagsalmanakið prentað í Kaupmannahöfn. Þegar Tryggvi Gunnarsson flutti búferlum til Íslands lét hann flytja prentun almanaksins inn í landið. Var það fyrst prentað í Ísafoldarprentsmiðju 1895-1902 en síðan í Félagsprentsmiðjunni 1903-1905, Gutenberg 1906-1966, Ísafoldarprentsmiðju 1967 og Lithoprent 1968.

Fyrstu árgangar almanaksins urðu fljótlega ófáanlegir. Árið 1916 voru fyrstu 5 árgangarnir endurprentaðir hér heima (í Gutenberg).

Prentun almanaksins fluttist þó ekki að öllu leyti til landsins með Tryggva, því að eftir sem áður þurfti að fá almanak háskólans, Íslandsalmanakið, frá Kaupmannahöfn og hefta það framan við þann hluta Þjóðvinafélagsalmanaksins sem prentaður var hér heima. Virðist stundum hafa orðið dráttur á því að almanakið bærist frá Kaupmannahöfn, og olli það erfiðleikum við útgáfuna.

Árið 1913 ákvað stjórn Þjóðvinafélagsins undir forystu Jóns Þorkelssonar að kaupa ekki almanak það sem háskólinn í Kaupmannahöfn gaf út, heldur ganga alveg frá almanakinu hér heima. Ætlunin var að gera almanaksreikningana hérlendis líka, en það tókst ekki, og var þá tekið til bragðs að taka útreikningana upp úr Íslandsalmanakinu með leyfi Hafnarháskóla. Árin 1914-1918 var Þjóðvinafélagsalmanakið þannig prentað að öllu leyti hér heima. Þessir árgangar eru töluvert frábrugðnir almanakinu í heild. Um breytingarnar, sem gerðar voru, skrifar Jón Þorkelsson í athugasemd í almanaki 1914. Þar stendur m.a.: „Úr sjálfu almanakinu hefur nú öllu því verið kipt burtu, sem áður hefir þar staðið og aungva verulega stoð hafði í neinum landsháttum hér eða í minningunni. Þó hefir verið farið svo varlega í það, að allir messudagarnir gömlu, sem íslensk heiti hafa feingið, hafa nær undantekningarlaust verið látnir óhaggaðir. Fyrir það sem út hefir verið tekið, hefir svo verið sett inn annað og nýtt efni, einkum eptirtakanlegustu atburðir úr sögu vorri frá öllum tímum, minningardagar (fæðingar- eða dánardagar) merkilegra íslenskra manna og allmargra manna útlendra, svo og nokkrir stórviðburðir úr almennri sögu".

Árið 1919 var svo aftur horfið að því að kaupa almanak háskólans. Ákvað stjóm Þjóðvinafélagsins að gera það til þess að draga úr hinum gífurlega kostnaði sem þá var á allri bókaútgáfu hérlendis. Því miður vildi oft verða dráttur á því að Íslandsalmanakið bærist frá Kaupmannahöfn, og olli þetta erfiðleikum við útgáfu Þjóðvinafélagsalmanaksins. Stundum bárust almanökin svo seint frá Danmörku að í algert óefni var komið. Í almanaki fyrir 1917 stendur svo: „Prentarinn hefir nú tekið upp á því að prenta almanökin ekki fyrr en seint í ágúst (hér mun átt við Íslandsalmanakið) svo Þjóðvinafélagið hefir ekkert almanak fengið ennþá. En félagið skuldbindur sig til að senda almanökin fyrir nýár til afgreiðslumanna þeim að kostnaðarlausu, þó að flutningur með landpóstum verði dýr. Bókin verður útbúin svo, að auðvelt verður að líma almanakið inn í hana". Þetta varð til þess að fáir hirtu um að líma fyrri hlutann við bókina, og hefur þessi árgangur því verið illfáanlegur í heilu lagi.

Í almanaki 1919 stendur: „Í október komu loksins almanökin frá Danmörku. Pappírinn í almanakið, sem prentað var heima kom í byrjun nóvember. Þá kom spánska veikin í opna skjöldu og tafði prentunina um þrjár vikur." Benedikt Sveinsson segir þá: „Ég vona að þetta verði í síðasta sinn, sem sækja þarf almanakið til Khafnar". Honum varð ekki að ósk sinni fyrr en 1923.

Eins og sjá má af efnisyfirliti því sem birtist í Þjóðvinafélagsalmanakinu 1968 hefur margvíslegt efni verið tekið til meðferðar á síðum þess frá upphafi. Þeir sem eru svo lánsamir að eiga almanakið í heild, mega því teljast vel birgir af alls kyns fróðleik.

Eitthvert merkasta atriði almanaksins er Árbók Íslands, sem fram kom strax í fyrsta árgangi 1875 og hefur birst á hverju ári síðan. Er þar að finna yfirlit yfir merkustu atburði hvers árs. Ekki er fullvíst hverjir hafa séð um árbókina fyrstu árin, en í handritasafni Jóns Sigurðssonar er að finna handrit að almanakinu 1875, og er það, að mér sýnist, allt skrifað með rithönd hans sjálfs. Þó skal ekki fullyrt að hann hafi séð um árbókina allan tímann sem hann hafði umsjón með almanakinu. Þegar Tryggvi Gunnarsson tók við almanakinu virðist hann fljótlega hafa fengið aðra til að sjá um árbókina fyrir sig, ef dæma má eftir þeim skammstöfunum sem sjá má undir árbókinni frá 1889 til 1894. Virðist oft hafa verið um námsmenn að ræða, og væri hægt að giska nokkuð á hverjir þetta hafa verið eftir skammstöfununum, en mér þykir þó ekki rétt að vera með neinar getgátur um það í þessari grein. Frá 1895-1909 sér Jón Borgfirðingur um árbókina, 1910-1912 Jóhann Kristjánsson, 1913-1914 Guðbrandur Jónsson, 1915-1919 Jóhann Kristjánsson, 1920 Benedikt Sveinsson o.fl., 1921-1937 Benedikt G. Benediktsson, 1938-1941 Björn Sigfússon, og frá og með 1942 Ólafur Hansson.

Árið 1877 fylgdi almanakinu stafrófstafla sem þægileg var að læra að skrifa eftir. Hafði Tryggvi Gunnarsson látið gera töfluna á sinn kostnað og gaf félaginu 2500 eintök. Árið 1882 var farið að birta myndir af erlendum þjóðhöfðingjum og síðar af ýmsum öðrum merkum mönnum ásamt æviágripi þeirra. Var þetta mjög vinsælt efni á sínum tíma, og hef ég oft heyrt roskið fólk tala um, hvað almanakið hafi verið lesið mikið og hve minnistæðir því væru þessir þættir um merka menn utan úr heimi.

Auk fróðleiksgreina hafa oft birst í almanakinu léttari þættir og gamansögur. Um það atriði segir Jón Sigurðsson í bréfi til Halldórs Kr. Friðrikssonar 15. ágúst 1874: „Það er annars skrítið, að það skuli vera verulegra að hafa einhverja sögu í almanakinu, heldur en nytsamar reglur, sem fólk getur haft gagn af. Ég kalla slíkt barnaskap, en þar fyrir vil ég samt gjarnan hafa þar sögu, ef ég hitti nokkra góða".
 

Ný bókaútgáfa

Árið 1939 var farið að ræða mikið um að koma á samvinnu Þjóðvinafélagsins og bókadeildar Menningarsjóðs, sem þá var í ráði að tæki til starfa á ný. Stjórn Þjóðvinafélagsins hefur alltaf verið kosin á Alþingi, svo og hefur félagið lengst af haft eitthvert fjárframlag frá ríkinu. Þótti því ekki óeðlilegt að þessar stofnanir ynnu saman, þar sem þær voru báðar háðar ríkinu. Þessari samvinnu var síðan komið á. Skyldi Þjóðvinafélagið gefa út þrjár bækur á ári en Menntamálaráð fjórar.

Dr. Þorkell Jóhannesson segir um þessa samvinnu í grein sem hann skrifaði í Almanak 1940: ,,En markmið hennar er að gera Þjóðvinafélagið að sterkri stofnun, sem hæfir hinu veglega nafni þess og sögulegum uppruna og þörf þjóðarinnar á öflugri, þjóðlegri menningarútgáfu", og á sama stað segir hann: „Sennilega verður t.d. almanakinu nokkuð breytt, aukið og gert fjölbreytilegra en löngum hefur kostur verið".

Það var þó síður en svo að það yrði í reyndinni, og má segja að almanakinu hafi heldur farið hnignandi uns svo var komið 1966 að lítið efni var í því umfram árbókina og skýrslu um mannalát. Frá og með 1967 hefur þó verið stefnt að því markvisst að efla almanakið á nýjan leik.

Eftirtaldir menn hafa verið forsetar Þjóðvinafélagsins:

Jón Sigurðsson alþingismaður 1871-1879

Tryggvi Gunnarsson bankastjóri 1880-1911 og 1914-1917

Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður 1912-1913

Benedikt Sveinsson alþingismaður 1918-1920

Dr. Páll Eggert Ólason 1921-1934

Pálmi Hannesson rektor 1936-1939

Jónas Jónsson alþingismaður 1940

Bogi Ólafsson yfirkennari 1941-1956

Þorkell Jóhannesson háskólarektor 1958-1960

Ármann Snævarr háskólarektor 1962-1967

Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður 1967- 
 


 
saga15.jpg saga16.jpg
Jón Sigurðsson Tryggvi Gunnarsson

 
saga17.jpg saga18.jpg
Jón Þorkelsson Benedikt Sveinsson

 
saga19.jpg saga20.jpg
Páll Eggert Ólason Pálmi Hannesson

 
saga21.jpg saga22.jpg
Jónas Jónsson Bogi Ólafsson

 
saga23.jpg saga24.jpg
Þorkell Jóhannesson Ármann Snævarr

 
saga25.jpg
Finnbogi Guðmundsson