Forsíða

Hvað grandaði risaeðlunum?  

    Á síðustu árum hefur það verið viðtekin skoðun, að árekstur smástirnis við jörðina fyrir 66 milljón árum hafi valdið því að risaeðlurnar (og reyndar fjölmargar aðrar lífverur) dóu út. Þeir sem hafa kynnt sér málið nánar vita þó, að þetta er umdeilt, og að aðrar skýringar koma til greina. Í októberhefti tímaritsins Sky & Telescope 2021 er ítarleg grein  um þetta efni, og er lesendum ráðlagt að lesa þá grein ef þeir vilja fá gott yfirlit um málið. Hér verður stiklað á stóru og fáeinum atriðum bætt við.

Kenningin um smástirnið kom fram árið 1980, þegar nóbelsverðlaunahafinn Louis Alvarez og félagar hans uppgötvuðu óvenjulegt jarðlag frá þeim tíma þegar lífverurnar dóu út. Í þessu jarðlagi fannst frumefnið iridín (iridium), sem er sjaldgæft í jarðskorpunni en algengt í loftsteinum. Þetta gaf ástæðu til að ætla að stór loftsteinn hefði bundið enda á feril eðlanna sem höfðu drottnað yfir jörðinni í 130 milljón ár. Það eina sem vantaði var að finna árekstrarstaðinn. Hann fannst árið 1991, tvö hundruð kílómetra breiður gígur á Júkatanskaga í suðaustanverðu Mexíkó. Að hluta er gígurinn undir Mexíkóflóa. Áætlað er loftsteinninn sem myndaði þennan gíg hafi verið að minnsta kosti 10 km í þvermál. Halastjarna kemur einnig til álita. Eftir áreksturinn hefði dimmur mökkur hulið jörðina árum saman svo að ekki hefði sést til sólar og fjölmargar lífverur dáið út af þeim sökum.

Önnur skýring kemur þó til álita. Nokkurn veginn á sama tíma urðu geysileg eldsumbrot á Indlandsskaga. Um það bil milljón rúmkílómetrar af hrauni runnu á Deccansléttunni á austanverðu Indlandi, en það svarar til þess að 10 km þykkt hraun hefði lagst yfir allt Ísland. Við þetta hefði svo mikið koldíoxíð farið út í andrúmsloftið að hitastig hefði hækkað upp úr öllu valdi og höfin súrnað svo að þar yrði ekki lífvænlegt.

Þriðji möguleikinn er sá, að hvort tveggja hafi komið við sögu, árekstur og eldgos. Í því sambandi hefur sú tilgáta verið sett fram að mikill jarðskjálfti sem fylgdi árekstrinum hafi aukið líkurnar á eldgosi annars staðar á jörðinni.

Harðar deilur standa enn um það hvað raunverulega átti sér stað. Meðan eðlurnar (stórar og smáar) réðu ríkjum áttu spendýr erfitt uppdráttar, en eftir umskiptin hófst blómatími spendýranna. Leiða má líkur að því að hamfarirnar fyrir 66 milljón árum hafi ráðið því að mannkynið komst á legg.

Þ.S. 26. 8. 2021.