Reikistjörnur í röð á himni

Lesendur almanaksins hafa væntanlega tekið eftir því, að í aprílmánuði og fram í maí verða fimm björtustu reikistjörnurnar samtímis á kvöldhimninum og mynda þar röð til austurs frá sólu. Þetta eru  þær reikistjörnur sem unnt er að sjá með berum augum og hafa verið þekktar frá fyrstu tíð:  Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Röðin verður þéttust 14. maí, þegar stjörnurnar fimm (og tunglið með) mynda 33 gráðu geira. Sunnar í löndum verður auðvelt að sjá þær allar samtímis með berum augum, en hér á landi verður það erfiðara, bæði vegna vorbirtunnar og eins vegna þess að reikistjörnurnar eru hér lægra á lofti þegar dimma tekur. Því er líklegt að menn verði að nota handsjónauka til að finna tvær þeirra: Merkúríus, sem er næst sól, og Mars, sem er daufastur, en eftir að þær eru fundnar, ættu þær að sjást með berum augum. Mars sést greiðlega þegar himinn er orðinn nægilega dimmur, en þá er orðið erfiðara að sjá Merkúríus vegna þess að hann hefur lækkað svo á lofti.

Venus er langskærust allra stjarna.  Júpíter gengur næst henni að birtu og er hæst á himni af reikistjörnunum fimm. Satúrnus er álíka bjartur og bjarta stjarnan Kapella sem er talsvert hærra á norðvesturhimninum. Merkúríus sést best um mánaðamótin þegar hann nær 8 gráðu hæð í norðvestri við myrkur í Reykjavík Mars er fremur daufur nú um stundir vegna fjarlægðar frá jörð, daufari en stjarnan Aldeberan í nautsmerki, þar sem hann er staddur. Mars ber rauðgulan blæ og það gerir Aldebaran líka. En Mars fylgir sólbrautinni eins og hinar reikistjörnurnar og er því nokkurn veginn í sömu línu og þær. Aldebaran er hins vegar um 5 gráður frá línunni (neðan við hana).  Hinn 10. maí reikar Venus fram hjá Mars og bilið á milli þeirra verður aðeins 0,3 gráður, minna en þvermál tungls.
 
Aðeins eru tvö ár síðan þessar sömu reikistjörnur mynduðu enn þéttari hnapp. Það var í maí árið 2000, þegar stjörnurnar voru allar innan 20 gráðu geira. Í það sinn var hópurinn í nánd við sólina og því ósýnilegur vegna birtunnar. 

Það er tiltölulega sjaldgæft að reikistjörnurnar myndi eins þétta röð og nú og séu jafnframt sýnilegar. Síðast gerðist það í byrjun mars árið 1940. Þá mynduðu þessar fimm reikistjörnur 40 gráðu geira á kvöldhimninum og lágu betur við athugun en nú. Í þau skipti sem reikistjörnurnar koma þétt saman síðar á þessari öld, liggja þær fremur illa við athugun frá Íslandi. Það er ekki fyrr en í  nóvember árið 2098 að athugunarskilyrði verða svipuð og nú. Í það skipti verða reikistjörnurnar  á morgunhimni og ná yfir 51 gráðu geira þegar þær standa þéttast.  Biðin eftir því sjónarspili er nokkuð löng. Þess vegna er rétt að grípa tækifærið nú ef menn vilja reyna að sjá allar stjörnurnar saman í röð.

Þ.S. 21.4. 2002
Viðbót 24.4. 2002