Forsíða
 

 
Ný reikistjarna?

    Hinn 20. janúar 2016 kynntu tveir stjörnufræðingar við Tækniháskóla Kaliforníu (Caltech) niðurstöður rannsókna sem þeir töldu benda til þess að áður óþekkt reikistjarna væri á braut um sólu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spá af þessu tagi kemur fram, en hingað til hafa allar slíkar spár brugðist. Engum getum skal að því leitt hvort svo verður í þetta sinn.
    Stjörnufræðingarnir tveir, Michael Brown og Konstantin Batygin tóku sér fyrir hendur að kanna brautir sex útstirna sem ganga um sólu utan við braut ystu reikistjörnunnar, Neptúnusar. Neptúnus er 30 stjarnfræðieiningar frá sólu, en útstirnin sex eru meira en fimm sinnum lengra í burtu. Er þá átt við meðalfjarlægðina frá sól, en mikill munur er á mestu og minnstu fjarlægð hvers útstirnis.  Í ljós kom að útstirni þessi hafa áþekk brautareinkenni; brautirnar liggja allar nálægt sama fleti og  sólnándin er á svipuðum stað. Með umfangsmiklum tölvureikningum tókst þeim Brown og Batygin að sýna fram á að þessa samstillingu brautanna mætti skýra með truflandi áhrifum frá fjarlægri reikistjörnu. Þeim reiknast svo, að þessi reikistjarna muni vera um það bil tífalt efnismeiri (massameiri) en jörðin og þvermál hennar tvisvar til fjórum sinnum meira en þvermál jarðar. Meðalfjarlægðin frá sólu reiknast þeim um 700 stjarnfræðieiningar, minnsta fjarlægð um 200 en sú mesta um 1100 einingar. Brautin ætti að hallast um 30° frá sólbraut. Allar þessar tölur eru mjög óvissar, og umferðartími reikistjörnunnar gæti verið frá 10 þúsund upp í 20 þúsund ár. Engar upplýsingar fást um það hvar á brautinni reikistjarnan myndi vera stödd nú um stundir. Leit að henni gæti því orðið býsna seinleg. Batygin og Brown giska á að reikistjarnan gæti verið á 18. birtustigi þegar hún er næst sól, en á 24. stigi þegar hún er fjærst. Reikistirnið Plútó er á 14. birtustigi svo að óþekkta reikistjarnan myndi vera um fjörutíu sinnum daufari en Plútó þegar hún er næst sól, en tíu þúsund sinnum daufari þegar hún er fjærst. Áhugamenn með góða sjónauka geta greint stjörnur á 18. birtustigi, og með stórum stjörnusjónaukum greinast stjörnur á 24. birtustigi, en það verður enginn hægðarleikur að finna þessa einu reikistjörnu innan um mergðina af daufum sólstjörnum. Hún myndi að vísu færast til frá degi til dags miðað við aðrar stjörnur, en hreyfingin yrði afar hæg og myndi aðallega stafa af hreyfingu jarðar um sólu frekar en hreyfingu sjálfrar reikistjörnunnar.
   Meðfylgjandi teikning sem birt hefur verið á Wikipediu sýnir brautir útstirnanna sex og hugsanlega braut hinnar óþekktu reikistjörnu (brotalína). Til samanburðar má nefna að sú geimflaug sem lengst er komin frá sólu (Voyager 1) hafði "aðeins" náð 134 stjarneininga fjarlægð í febrúar 2016. 

 Þ.S. 12.2. 2016  

   Almanak Háskólans