Halastjarna á himni (Machholz)

Þessa dagana (í ársbyrjun 2005) er halastjarna sýnileg á kvöldhimninum. Hún er ekki mjög björt (birtustig um 4) en sést þó með berum augum og auðveldlega í handsjónauka sem þokukenndur hnoðri. Sem stendur er hún í nautsmerki, sunnan (neðan) við Sjöstirnið á hraðri leið norður og fer fram hjá Sjöstirninu 7.-8. janúar, aðeins 3° vestan við það. 

Halastjarna þessi heitir C/2004 Q2, öðru nafni Machholz eftir stjörnuáhugamanninum Donald Machholz sem fann hana 27. ágúst 2004. Machholz, sem er sjóntækjafræðingur í Kaliforníu, hefur áður fundið níu halastjörnur með þrotlausri leit. Hann notar spegilsjónauka sem er 15 cm í þvermál.

Halastjarnan Machholz verður næst jörðu 5.-6. janúar í 50 milljón km fjarlægð. Það jafngildir þriðjungi úr stjarnfræðieiningu, sem er fjarlægðin milli jarðar og sólar. Hinn 24. janúar verður halastjarnan næst sólu í 1,2 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni. Hún gengur því ekki inn fyrir braut jarðar. Braut halastjörnunnar um sólina er mjög ílangur sporbaugur og umferðartíminn reiknast 120 þúsund ár. 

Því er spáð að halastjarna þessi verði björtust kringum 10. janúar, en erfitt er að spá nákvæmlega um birtu eða birtubreytingar hennar fremur en annarra halastjarna.

Snævarr Guðmundsson tók myndina hér að neðan að kvöldi 1. janúar með myndavél af gerðinni Nikon Coolpix 8400. Myndin spannar um það bil 20° breitt svæði á himninum. Efst er Sjöstirnið, en til vinstri er önnur þyrping, Regnstirnið, ásamt björtustu stjörnunni í nautsmerki, Aldebaran.

 

Nokkrar góðar myndir af halastjörnunni hafa þegar birst á Veraldarvefnum, þar á meðal þessi:

http://antwrp.gsfc.nasa.gov/apod/ap041213.html

Nýrri mynd, tekin 6. janúar, sýnir halastjörnuna nálgast Sjöstirnið. Myndina tóku Austurríkismennirnir Michael Jäger og Gerald Rhemann.

Myndin er fengin af vefsíðunni http://www.astrostudio.at/common/images/fullFormat/LRGB3.jpg
en snúið þannig að hún horfi rétt við þegar Sjöstirnið er í suðri.

 

Þ.S. 2.1. 2005. Viðbót 3.1. og aftur 9.1. 2005

Almanak Háskólans