| 
			 Lengdarbaugur Greenwich     Eins og kunnugt er hefur lengdarbaugur
			Greenwich lengi verið viðmið í hnattstöðu- og tímareikningi. Við
			gömlu stjörnustöðina í Greenwich er þessi lengdarbaugur merktur á
			jörð og vekur óskipta athygli ferðamanna (sjá mynd).
			Það fór hins vegar fram hjá flestum þegar þessi baugur var
			skilgreindur upp á nýtt árið 1984. Ferðamenn verða þess helst varir
			ef þeir prófa GPS leiðsögutæki sín á hinum merkta baug og uppgötva
			að tækin sýna ekki núll gráðu lengdar.  Núgildandi baugur
			liggur nefnilega 102 metrum austar en sá gamli. Eldri baugurinn var
			kenndur við stjörnufræðinginn Airy sem ákvarðaði hann árið
			1891. Sá baugur er lóðbaugur, þ.e. lóðlínan í Greenwich liggur í
			baugfletinum. En það gildir um Greenwich eins og flesta staði á
			jörðu, að lóðlínan þar liggur ekki nákvæmlega gegnum miðju jarðar. Í
			nútíma landmælingakerfum er núllbaugurinn skilgreindur þannig að
			miðja jarðar sé í baugfletinum.  Ennfremur er
			tekið tillit til þess að staðir á jörðu færast stöðugt til vegna
			landreks. Núllbaugurinn miðast því við meðalhreyfingu allra fleka
			jarðskorpunnar. Greenwich fylgir ekki þessari meðalhreyfingu. Af
			þeim sökum er baugurinn ekki kyrrstæður miðað við yfirborð jarðar í
			Greenwich, heldur færist til vesturs um 2 cm á ári.
			Ætla mætti að flutningur núllbaugsins
			um 102 metra hefði valdið stökki í tímareikningi (um 0,35 sekúndur),
			en svo var ekki. Til að skýra það skal nú gerð nánari grein fyrir 
			sögu  þessa máls. Í samþykktinni frá 1884 sagði að miða skyldi við lengdarbaug sem lægi um hábaugssjónaukann í Greenwich. Í framkvæmd var þetta túlkað þannig að átt væri við hábaugssjónauka sem George Biddell Airy hafði sett upp og verið hafði í notkun frá árinu 1851. En í Greenwich voru tveir eldri hábaugssjónaukar sem þeir James Bradley og John Pond höfðu sett upp, um það bil 6 metrum vestan við sjónauka Airys. Öll bresk sjókort og landakort höfðu miðast við þessa eldri sjónauka, og það var sú mikla kortaútgáfa sem leiddi til þess að Greenwich varð fyrir valinu sem viðmiðunarstaður. Það var ekki fyrr en árið 1949 að mönnum varð ljóst að kortin höfðu miðaðst við annan lengdarbaug en þann sem gerður var að viðmiði árið 1884.     Lengdarbaugur Greenwich var 
			upphaflega ákvarðaður með stjörnufræðilegum athugunum. Fundin var 
			stefnan til hánorðurs og sú stefna, ásamt lóðlínu á staðnum, notuð til 
			að skilgreina svonefndan hábaugsflöt. Skurðlína þess flatar 
			við yfirborð jarðar varð þá lengdarbaugur Greenwich. Lengdarbaugar 
			annarra staða voru markaðir á hliðstæðan hátt. Til að finna 
			lengdarstigið á hverjum stað, þ.e. frávikið frá Greenwich, var mælt 
			hvenær tilteknar stjörnur voru í hásuðri og þannig 
			fylgst með svonefndum stjörnutíma á staðnum. Munurinn á stjörnutíma 
			staðarins og stjörnutíma í Greenwich sagði til um það á hvaða 
			lengdarbaug athugunarstaðurinn væri. Klukkutímamunur í tíma svarar 
			til 15° munar í lengd. Í fyrstu urðu menn að flytja nákvæmustu 
			klukkur sem völ var á milli landa til að sannreyna hvað tímanum 
			liði í Greenwich. Með útvarpstækninni á 20. öld varð það verkefni 
			auðleyst.  Á áttunda áratugnum var farið að nota gervitungl til hnattstöðumælinga. Síðan bættust við fleiri aðferðir: mælingar á rafaldsbylgjum frá fjarlægum uppsprettum í geimnum (dulstirnum) og mælingar á fjarlægð tungls með leysigeislum. Þessar aðferðir voru miklu nákvæmari en hefðbundnar mælingar með stjörnusjónaukum, og árið 1984 lögðust þær síðarnefndu alfarið af. Um leið var tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi hnattstöðu, Alþjóðlega hnattstöðukerfið (International Terrestrial Reference Frame, ITRF), sem til er í mismunandi útgáfum, svo og landmælingakerfið WGS84, sem GPS gervitunglin nota. Núllbaugur þessara kerfa liggur í fleti gegnum miðju jarðar, ólíkt hinum eldri núllbaug Greenwich, sem réðst af lóðlínu staðarins. Nýi baugurinn liggur 102 metrum austan við hinn gamla eins og fyrr segir. GPS mæling á gamla núllbaugnum við stjörnustöðina í Greenwich sýnir nú 5,3 sekúndur (0,088 mínútur) vestlægrar lengdar. Það að lóðlínan í Greenwich stefnir ekki að jarðarmiðju er engan veginn óvenjulegt. Jörðin er ekki regluleg í lögun, og óreglur í jarðmöttlinum hafa áhrif á stefnu þyngdarsviðsins. Við nákvæmar mælingar hefur komið í ljós að staðsetningar breytast smám saman vegna landreks. Eins og kunnugt er af umræðum um flekaskilin á Íslandi fer bilið milli Ameríkuflekans og Evrasíuflekans vaxandi. Í Greenwich mælist hreyfingin um 3 cm á ári til norðausturs og veldur því að gamli núllbaugurinn færist smátt og smátt nær nýja núllbaugnum sem fylgir meðalstöðu jarðflekanna. Tímareikningur á jörðinni ræðst af því hvernig jörðin snýr í geimnum miðað við stjörnuhimininn. Nú fara stjörnur örlítið fyrr yfir hinn nýja núllbaug lengdar en hinn gamla. Munurinn nemur 0,35 sekúndum eins og fyrr var sagt. Þótt þetta sé ekki mikill munur þótti ekki fært að hliðra klukkum sem þessu næmi þegar skipt var um núllbaug árið 1984. Þar sem heimstíminn er reiknaður út frá stjörnutíma var brugðið á það ráð að breyta formúlunni sem notuð er svo að ekki yrði stökk í heimstímanum. Heimstíminn er því í reynd ennþá miðaður við fyrri núllbaug. (Sumir vilja orða það svo, að miðað sé við nýja núllbauginn, en gert ráð fyrir sama halla á baugfletinum og var í gömlu stjörnustöðinni í Greenwich þannig að fletirnir séu samsíða og stjörnur fari samtímis yfir þá báða.)     Að lokum skal farið nokkrum 
			orðum um færslu heimskautanna.Yfirborð jarðar er á hreyfingu 
			miðað við snúningsás hennar. Hreyfingin er sambland af óreglulegri 
			hringhreyfingu og langtímahreyfingu. Meðfylgjandi mynd sýnir annars 
			vegar hringhreyfinguna frá 2001 til 2006 og hins vegar hvernig 
			meðalstaða norðurpólsins hefur hliðrast frá 1900 til 2000. Kvarðarnir 
			lárétt og lóðrétt eru merktir í hornamáli (bogasekúndum). Við 
			heimskautið svarar 0,1 bogasekúnda til þriggja metra á yfirborði jarðar. 
			Allar stöður á myndinni eru reiknaðar frá meðalstöðu pólsins á 
			tímabilinu 1900-1905, sem er fast viðmið. Myndin er fengin af 
			vefsíðu Alþjóðaþjónustu jarðsnúnings og viðmiðunarkerfa 
			(International Earth Rotation and Reference Systems  Service).    |