Þorsteinn Sæmundsson:

Sólstöður eða sólhvörf?

    Í þættinum "Daglegt mál", sem fluttur var í útvarpi hinn 23. febrúar árið 1981, var meðal annars fjallað um orðin sólstöður og sólhvörf. Tilefnið var bréf, sem þættinum hafði borist, og lýsti nokkurri gagnrýni á Almanak Háskólans vegna þess að þar væri notað orðið "vetrarsólstöður". Kvaðst bréfritari hafa vanist því að talað væri um sólstöður á sumrin en sólhvörf á vetrum. Umsjónarmaður þáttarins tók undir þessa gagnrýni að verulegu leyti. Sagði hann að vísu, að orðið sólhvörf þyrfti ekki að vera bundið við vetrarsólhvörf, en um orðið sólstöður felldi hann þann úrskurð, að það ætti einungis við um sumarsólstöður. Orðið "vetrarsólstöður", sem stæði í almanaki háskólans, hlyti að vera dæmi um einhvers konar hávísindalega orðanotkun eða vanhugsaða tilraun til samræmingar, eins og umsjónarmaðurinn komst að orði.

    Þarna gætti nokkurs misskilnings, svo að ekki sé meira sagt. Orðin sólhvörf og sólstöður eru öldungis jafngild í íslensku máli og hafa verið það um langan aldur, þótt orðið sólhvörf sé að líkindum eldra. Í hinu forna riti Rímbeglu, sem gefur mynd af íslenskri tímatalsfræði á 12. og 13. öld, eru orðin notuð jöfnum höndum, sólhvörf ýmist í fleirtölu eða eintölu, en sólstaða í eintölu. Talað er um sólhvarf eða sólhvörf á vetur, sólhvarf eða sólhvörf á sumar, sólstöðu á vetur og sólstöðu á sumar. "Sjá, sólargangur hefur tvö jafndægri og tvær sólstöður", segir í Rímbeglu, og þar má líka finna dæmi um, að í sömu andrá sé talað um sólstöðu á vetur og sólhvörf á sumar, gagnstætt þeirri notkun sem lýst var í fyrrnefndu bréfi til þáttarins "Daglegt mál".

    Elsta almanak, sem prentað er á Íslandi og varðveist hefur, er Calendarium - Íslenskt rím, sem út kom á Hólum árið 1597. Þar er að finna eftirfarandi vísu um sólstöðurnar: "Fyrir Jesúm og Jóhann skalt / jafnt sólstöður leggja / tólf daganna tölu halt / til fæðingar beggja." Þetta ber að skilja svo, að sólstöður séu sem næst tólf dögum fyrir jóladag og tólf dögum fyrir Jónsmessu, en það var áður en tímatalið var leiðrétt hér á landi.

    Fingrarím Jóns Árnasonar, sem út kom árið 1739, hefur að geyma dagatal. Í því dagatali eru dagarnir 22. júní og 20. desember báðir auðkenndir með orðinu sólstöður. En í rímu sem dagatalinu fylgir, er einnig getið um seinni atburðinn, í desember, og hann þá kallaður sólhvörf.

    Áður en reglubundin útgáfa íslenskra almanaka hófst, var nokkuð um það að menn notuðust við dönsk almanök, þótt tæplega hafi þau komið að fullum notum. Til eru handskrifaðar þýðingar af slíkum almanökum með íslenskum viðbótum. Fáein eintök af þessu tagi eru í mínum fórum, rituð af Gísla Árnasyni, hið elsta frá 1830. Athyglisvert er, að Gísli þýðir danska orðið solhverv með orðinu sólstöður, bæði í júní og desember. Hefði þó legið beinna við að nota orðið sólhvörf, vegna skyldleika við danska heitið, nema orðið sólstöður hafi verið Gísla þeim mun tamara. Hið sama gerir Finnur Magnússon sem hafði veg og vanda af fyrstu útgáfu íslenska almanaksins (almanaks háskólans) árið 1837, í Kaupmannahöfn. Fyrstu tólf árin, meðan Finnur sá um útgáfuna, var orðið sólstöður haft á báðum stöðum í almanakinu, að sumri og vetri, þótt almanakið væri mjög sniðið eftir hinu danska.

    Árið 1849 tók Jón Sigurðsson við umsjón með almanakinu og gerði á því ýmsar breytingar, þar á meðal þá að rita sólhvörf í staðinn fyrir sólstöður í desember, en Jón lét orðið sólstöður halda sér í júní. Hver ástæðan hefur verið veit ég ekki, en hugsanlegt er að Jón hafi viljað draga  fram það nafnið sem minna var notað og skarta þeim báðum í almanakinu, úr því að íslenskan var svo auðug að eiga tvö orð þar sem aðrar þjóðir létu sér nægja eitt. Þeir sem tóku við almanakinu af Jóni hafa ekki séð ástæðu til að hrófla við þessu, og stóð þetta þannig óbreytt allt fram til ársins 1939. Þá höfðu þeir Ólafur Daníelsson og Þorkell Þorkelsson haft útreikning og útgáfu almanaksins með höndum í mörg ár og gert á því ýmsar breytingar, eftir því sem þeir töldu best og réttast, að hætti fyrirrennara sinna. Árið 1939 fella þeir niður orðið sólhvörf í desember en taka aftur upp orðið sólstöður. Ekki virðast þeir þó hafa haft mjög ákveðna skoðun á málinu, því að næstu tvö árin rita þeir sólhvörf í júní en sólstöður í desember, gagnstætt því sem fyrr hafði verið gert. Árið 1942  kemst þetta svo í fastar skorður, og alla tíð síðan, í 40 ár, hefur orðið sólstöður verið notað í almanakinu, bæði í júní og dersember. Veit ég ekki til að það orðalag hafi verið gagnrýnt opinberlega fyrr, og má það heita síðbúin athugasemd.

    Skylt er þó að geta þess, að ég hef áður orðið var við þá hugmynd meðal fólks af eldri kynslóðinni, að orðið sólstöður eigi betur við að sumarlagi, en sólhvörf að vetrarlagi. Hvernig þessi hugmynd er tilkomin veit ég ekki með vissu, en vil varpa fram þeirri tilgátu að almanakið sjálft eigi hér hlut að máli. Með því að halda föstu orðalagi í almanakinu í 90 ár, frá 1849 til 1938, og rita ávallt sólstöður í júní en sólhvörf í desember, hafa ritstjórar almanaksins ef til vill ýtt óviljandi undir þá hugmynd, að svona ætti þetta að vera og ekki öðru vísi. Að nokkuð slíkt hafi vakað fyrir Jóni Sigurðssyni, sem fyrstur tók þetta upp, tel ég fjarska ólíklegt.

    Vonandi er þessi misskilningur hér með úr sögunni, svo að hver og einn geti framvegis óhræddur notað það orðið sem hann kýs heldur, sólstöður eða sólhvörf, hvort heldur er að sumri eða vetri, í fullri vissu um, að fyrir því sé löng og ágæt hefð í íslensku máli.

(Nær samhljóða grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 1981)
 

Almanak Háskólans