Jafndægur og sólstöður  

    Í Almanaki Háskólans 2008, bls. 90,  er gerð grein fyrir því á hvaða dagsetningar jafndægur og sólstöður geta fallið, hvaða dagsetningar eru algengastar og hverjar sjaldgæfastar og hvernig þessar dagsetningar breytast með tímanum, aðallega vegna hlaupáranna. Hlaupársloturnar eru tvær, fjögurra ára lotan, þegar skotið er inn degi á fjögurra ára fresti, og fjögurra alda lotan, þegar felld eru niður hlaupár á aldamótum í þrjú skipti af hverjum fjórum. Árið 2100 verða liðnar fjórar aldir síðan nýi stíll (gregoríanska tímatalið) tók gildi á Íslandi. Á þessu tímabili (1700-2100) haldast  jafndægur og sólstöður innan eftirfarandi marka:

    Jafndægur á vori: 19.-21. mars
    Sumarsólstöður: 20.-22. júní
    Haustjafndægur: 21.-24. september
    Vetrarsólstöður: 20.-23. desember.

    Þess var ekki getið í almanakinu hvenær fyrstu eða síðustu mögulegar dagsetningar hefðu komið upp né hvenær það gerist næst. Skal nú bætt úr því.

    Vorjafndægur bar upp á 19. mars árið 1796. Næst mun það gerast árið 2044.
    Vorjafndægur bar upp á 21. mars árið 2007. Næst mun það gerast árið 2102.
    Sumarsólstöður bar upp á 20. júní árið 2008. Næst mun það gerast árið 2012.
    Sumarsólstöður bar upp á 22. júní árið 1975. Næst mun það gerast árið 2203.
    Haustjafndægur hefur ekki borið upp á 21. september frá því að nýi stíll var tekinn upp. Næst  mun það gerast árið 2092.
    Haustjafndægur bar upp á 24. september árið 1931. Næst mun það gerast árið 2303.
    Vetrarsólstöður hefur ekki borið upp á  20. desember síðan nýi stíll var tekinn upp hér á landi.  Næst mun það gerast árið 2080. 
    Vetrarsólstöður bar upp á 23. desember árið 1903. Næst mun það gerast árið 2303.

    Eins og segir í almanakinu falla tímar jafndægra og sólhvarfa ekki nákvæmlega í sömu skorður eftir 400 ára lotu. Til þess liggja tvær ástæður. Í fyrsta lagi dugir gildandi hlaupársregla ekki fyllilega til að samstilla almanaksárið og árstíðaárið. Munurinn eftir 400 ár nemur um það bil þremur klukkustundum. Í öðru lagi næst fullkomin samstilling aldrei með neins konar fastri hlaupársreglu, bæði vegna hægfara breytinga á braut jarðar um sólu og vegna breytinga á lengd sólarhringsins. Ef við lítum á næstu 400 ára lotu, frá 2100 til 2500 kemur fram áður óséð dagsetning þegar sumarsólstöður verða 19. júní. Það gerist árið 2488. Á það er bent í ritinu Astronomical Tables eftir belgíska stærðfræðinginn Jean Meeus.

    Rétt er að taka fram að hér að ofan er miðað við núgildandi tímareikning á Íslandi, þ.e. miðtíma Greenwich. Ef klukkur eru stilltar eftir öðrum tíma getur munað degi til eða frá í dagsetningu, og ártölin fyrir hámarks- og lágmarksgildi í dagsetningum geta þá breyst frá því sem þarna segir. Hérlendis getur sú sérkennilega staða komið upp að sólstöðurnar beri ekki upp á lengsta eða stysta dag ársins. Þetta stafar af því að miðnætti er ekki kl. 00. Í Reykjavík er miðnætti um sumarsólstöður kl. 01:30 eða því sem næst. Ef sólstöðurnar verða milli kl. 00 og 01:30, er það næsti dagur á undan sem er lengstur. Dæmi um þetta var árið 2004. Þá voru sólstöður 21. júní kl. 00:57, en sól var örlítið lengur á lofti 20. júní. Í það skipti nam munurinn aðeins broti úr sekúndu, en ef sólstöðurnar yrðu rétt eftir kl. 00 gæti munurinn numið 20 sekúndum.       

Þ.S. 14. júlí 2008. Viðbót 21.12. 2009. Síðasta viðbót 19. 6. 2013.

Almanak Háskólans