Sést alþjóðlega geimstöðin frá Íslandi?

Í fréttaspegli Ríkisútvarpsins hinn 16. nóvember 2011 var fjallað um alþjóðlegu geimstöðina sem gengur um jörðu. Þulur komst svo að orði:

"Alþjóðlega geimrannsóknastöðin sem vel sést í skammdeginu þegar heiðskírt er þar sem hún lónar í um fjögur hundruð og sextíu kílómetra hæð yfir jörðu er starfsstöð alþjóðlegs teymis vísindamanna. Frá Reykjavík sést hún á austurhimni, reyndar til suðausturs. Skært ljós stafar frá henni, oft nokkuð gulleitt. Stöðin sjálf er á stærð við fótboltavöll. Þar inni starfa sex eða sjö vísindamenn hverju sinni. Dr. Bonnie Dunbar, geimfari, hefur nokkrum sinnum farið út í stöðina til starfa. Hún er þaulreyndur geimfari frá Washington-fylki í Bandaríkjunum, nú stödd í Reykjavík. Spegillinn ræddi við hana í dag...."

Þeim sem til þekkja kom þessi lýsing nokkuð á óvart. Strax sama kvöld birtist athugasemd á Stjörnufræðivefnum þar sem sagt var að þarna hefði geimstöðinni verið ruglað saman við reikistjörnuna Júpíter: http://stjornuskodun.blog.is/blog/stjornuskodun/entry/1205237/.
Sú tilgáta var vafalaust rétt, og má furðulegt heita að einhver skyldi ímynda sér að geimstöð sem gengur umhverfis jörðu á 90 mínútum sæist "lóna" á himninum frá Reykjavík séð. (Reyndar er geimstöðin nálægt 400 kílómetra hæð frá jörðu, svo að þar var önnur villa í frásögn Ríkisútvarpsins þótt minni háttar væri.) Geimstöðin kemst ekki norðar en á 52. breiddargráðu (51,6 N) svo að hún getur aðeins sést í stutta stund lágt á suðurhimni í Reykjavík, og aðeins þegar vel stendur á. Til þess að svo megi verða þarf geimstöðin að vera stödd mjög norðarlega á braut sinni þegar hún er í suðri frá Reykjavík. Við hagstæðustu skilyrði geta um það bil átta mínútur liðið frá því að stöðin kemur upp fyrir sjónbaug í suðvestri þangað til hún hverfur undir sjónbaug í suðaustri. Stöðin kemst þá um 9° yfir sjóndeildarhring. Þótt hún sé í 1500 km fjarlægð frá Reykjavík gæti hún hugsanlega orðið meðal björtustu stjarna í stutta stund, en birtan fer mjög eftir afstöðunni til sólar. Á vefsíðunni www.heavens-above.com má finna spá um það hvenær geimstöðin sjáist frá hverjum stað á jörðinni og hve björt hún verður. Þótt sú spá sé ekki fyllilega nákvæm ætti hún að hjálpa áhugasömum athugendum að koma auga á geimstöðina. 

Þ.S. 18.11. 2011
 

Almanak Háskólans