Horft að endimörkum alheims

Í mars 2004 birtu stjörnufræðingar við Vísindastofnun geimsjónaukans (Space Telescope Science Institute) einstæða mynd sem tekin var með Hubble-sjónaukanum. Myndin var tekin  þannig að sjónaukanum var beint að sama stað á himni hvað eftir annað og ljósi safnað í samtals 12 sólarhringa. Notaðar voru tvær myndavélar og var önnur næm fyrir innrauðu ljósi. Með þessu móti náðist mynd af mjög daufum og fjarlægum vetrarbrautum, nálægt endimörkum hins sýnilega heims. Valinn var staður á suðurhimni í stjörnumerkinu Ofninum (Fornax) þar sem engar nálægar stjörnur var að sjá. Svæðið á himninum sem myndin nær yfir er um 1/10 af þvermáli tunglsins. Á myndinni sjást á að giska tíu þúsund vetrarbrautir, og er talið að þær daufustu séu meira en13 milljarða ljósára frá jörðu. Nánari upplýsingar er að finna í  þessari fréttatilkynningu. Þar er einnig að finna skýrari eintök af myndinni.

Þ.S. 25. 4. 2004.

Almanak Háskólans