Óvenjuleg halastjarna

    Þessa dagana (í október 2007) er óvenjuleg halastjarna sýnileg á himni. Halastjarna þessi, sem kennd er við Holmes, fannst árið 1892 og gengur um sólina milli brauta Mars og Júpíters. Að jafnaði er hún svo dauf að hún sést ekki nema í öflugustu sjónaukum. Hinn 24. október blossaði hún skyndilega upp svo að ljósmagnið jókst nær milljónfalt, frá birtustigi 17,5 til 2,5 eða þar um bil. Halastjarnan er stödd í stjörnumerkinu Perseusi (sjá kort í Almanaki Háskólans, bls. 72), skammt frá björtustu stjörnunni í merkinu og er alltaf ofan sjónbaugs á Íslandi. Hún sést auðveldlega með berum augum, en fljótlegra er að finna hana með litlum handsjónauka. Fyrri hluta kvölds er hún í norðaustri til austurs, hátt á lofti. Í sjónauka sést ljóshnoðri, og er það haddurinn (coma), rykhjúpur sem umlykur kjarnann. Haddurinn fer stækkandi og þegar þetta er ritað er hann um milljón kílómetrar í þvermál. Enginn hali hefur sést enn sem komið er, en þess ber að gæta að halinn stefnir ávallt frá sól, og í þessu tilviki færi hann nærri sjónlínu, bak við halastjörnuna. Ekki er vitað hvernig stendur á hinni gríðarlegu birtuaukningu, en saga halastjörnunnar er einkar athyglisverð.
    Það var Englendingurinn Edwin Holmes sem uppgötvaði þessa halastjörnu. Hún var áður fyrr skráð undir heitinu 1892 III eða 1892 h, en í núgildandi skráningarkerfi heitir hún 17P/Holmes þar sem P merkir umferðarhalastjörnu (e. periodic comet), þ.e. halastjörnu sem sést hefur oftar en einu sinni, og talan 17 merkir að hún sé sú sautjánda þeirrar tegundar. Þegar Holmes fann hana var hún álíka björt og Andrómeduþokan, á bilinu 3-4 að birtustigi, en dofnaði ört á næstu vikum. Í fyrstu sást lítill hali, og um tíma sást aukahnoðri utan við haddinn og kjarninn sýndist klofinn. Fljótlega dofnaði  halastjarnan og varð of dauf til að sjást með berum augum, en um miðjan janúar 1893 blossaði hún upp aftur, og var þá hægt að greina hana án sjónauka í eina eða tvær vikur. Umferðartími hennar um sól er um það bil sjö ár, og hún sést best þegar hún er næst jörðu. Hún sást næst árið 1899 og aftur árið 1906, en í bæði skiptin var hún afar dauf og greindist aðeins í góðum sjónaukum. Síðan týndist hún og fannst ekki aftur fyrr en eftir mikla leit og útreikninga árið 1964. Eftir það hafa menn séð hana á sjö ára fresti, en hún hefur verið afar dauf þar til nú, að hún blossar upp á nýjan leik eftir öll þessi ár.
    Braut halastjörnunnar Holmes er ekki hringlaga; minnsta fjarlægð hennar frá sól er 2,1 stjarnfræðieining en mesta fjarlægð 5,2 stjarnfræðieiningar. Brautin er talsvert breytileg  vegna truflana frá reikistjörnunni Júpíter. Fjarlægð halastjörnunnar frá jörðu er sem stendur 1,6 stjarnfræðieining. Hún hreyfist hægt á himni og verður í stjörnumerkinu Perseusi næstu mánuði. 
    Íslenskir stjörnuáhugamenn hafa þegar náð myndum af þessari merkilegu halastjörnu.
Sjá http://korkur.astro.is/viewtopic.php?t=240

Helstu heimildir:
S.K. Vsekhsvyatskii: Physical Characteristics of Comets (1964)
Gary W. Kronk: Comets, a Descriptive Catalog (1984)
BAA Electronic Bulletin No. 00314 (29. okt. 2007)
Vefsíða Seiichi Yoshida http://www.aerith.net/comet/catalog/0017P/2007.html

Viðbót 1.11. 2007
Athugunarskilyrði voru afar góð á Reykjavíkursvæðinu að kvöldi 31. október. Snævarr Guðmundsson tók myndina hér að neðan með 110 mm sjónauka af gerðinni Williams Optic. Lauslega áætlað er þvermál halastjörnuhaddsins sem á myndinni sést um 10 bogamínútur, sem svarar til 700 þúsund kílómetra. Haddurinn stækkar um rösklega 1 bogamínútu á dag1), en það svarar til þess að efnið dreifist frá kjarnanum með hraðanum 2000 km/klst. eða þar um bil.

1)Vefsíða Sky&Telescope (http://www.skyandtelescope.com)


Viðbót 6. 11. 2007
Samkvæmt fréttum á vefsíðu tímaritisins Sky&Telescope heldur haddur halastjörnunnar áfram að stækka og er þvermál hans á himni  nú um ¼ úr gráðu, sem er helmingur af sýndarþvermáli tungls. Yfirborð haddsins hefur dofnað, en heildarbirtan breytist lítið. Í öflugum sjónaukum má nú sjá fyrstu merki um hala, eins og fram kemur á þessari mynd sem Austurríkismennirnir Michael Jäger og Gerald Rhemann tóku:
 http://www.spaceweather.com/comets/holmes/04nov07/michael-j%E4ger1.jpg

Viðbót 8.11. 2007
Að kvöldi 7. nóvember tók Snævarr Guðmundsson aðra mynd sem sýnd er hér fyrir neðan. Á myndinni mælist þvermál haddsins (milli skarpra brúna) þriðjungur úr gráðu, en þar fyrir utan er daufari hjúpur og vottar fyrir hala. Blái liturinn er nokkuð ýktur.


Viðbót 12. 11. 2007
Að kvöldi 10. nóvember náði Snævarr Guðmundsson enn einni mynd af halastjörnu Holmes. Hún var þá komin nærri stjörnunni Mirfak sem er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseusi og sést ofarlega hægra megin á myndinni. Halastjarnan lítur enn út eins og daufur hnoðri, en stækkar sífellt og er nú álíka stór og tunglið á himninum. Minnsta þvermál haddsins á þessari mynd mælist 26 bogamínútur. Halinn, sem vottar fyrir, virðist hafa dofnað og slitnað í sundur svo að erfitt er að greina hann.

Viðbót 19.11. 2007
Þrátt fyrir óhagstætt veður náði Snævarr Guðmundsson mynd af halastjörnunni að kvöldi 17. nóvember. Myndin birtist hér fyrir neðan. Á henni má sjá hvernig halastjarnan hefur færst til miðað við fastastjörnurnar á þeim fimm sólarhringum sem liðu frá því að myndin hér að ofan var tekin. Er halastjarnan nú rétt hjá fastastjörnunni Mirfak. Kjarninn sést greinilega, en ekki vottar lengur fyrir halanum.

Viðbót 23.11. 2007
Enn hefur Snævarr náð mynd af halastjörnu Holmes eins og sjá má hér fyrir neðan. Þessi nýjasta mynd var tekin að kvöldi 20. nóvember.

Viðbót 2.12. 2007
Myndina hér að neðan tók Snævarr að kvöldi 1. desember. Að hans sögn var hún þá talsvert farin að dofna.

Viðbót 11.12. 2007
Næstu mynd tók Snævarr að kvöldi 7. desember. Neðst til vinstri á myndinni má greina lausþyrpinguna NGC 1245 sem telur um 200 stjörnur. Þessi þyrping er á 8. birtustigi og sést því ekki með berum augum. Hún er um þrjár gráður (sex þvermál tungls) frá björtu stjörnunni Mirfak sem halastjarnan fór fram hjá seint í nóvember (sjá myndir ofar).

Viðbót 19.12. 2007
Næstu mynd tók Snævarr að kvöldi 15. desember. Halastjarnan var þá mjög farin að dofna að hans sögn.

 
Þ.S. 29.10. 2007. Síðast breytt 19.12. 2007

Almanak Háskólans