Merkilegar geimmyndir  

    Bandaríska geimvísindastofnunin (NASA) birti nýlega myndir sem teknar voru úr gervitunglinu DSCOVR (Deep Space Climate Observatory, einnig kallað GoreSat) sem skotið var á loft í febrúar 2015. Gervitungl þetta heldur sig nálægt jafnvægispunkti milli jarðar og sólar í 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörð, fjórum sinnum lengra frá jörðinni en tunglið (máninn). Séð frá gervitunglinu getur það gerst að tunglið gangi milli gervitungls og jarðar og skyggi á jörðina að hluta. Þetta gerðist 16. júlí s.l. og var þá meðfylgjandi mynd tekin.



   Þessi mynd er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi sýnir hún hversu dökkt tunglið er miðað við jörðina. Þetta mun koma mörgum á óvart, sem horft hafa á tunglið þegar það er fullt. En mælingar sýna að tunglið endurvarpar aðeins 7% af því sólarljósi sem á það fellur og er því sannarlega dimmur hnöttur. Jörðin endurvarpar hins vegar 30% af sólarljósinu. Endurvarpið er mest í áttina til ljósgjafans (sólarinnar) og breytir það þessum tölum í 12% fyrir tunglið og 37% fyrir jörðina. Á myndinni er tunglið "fullt" frá gervitunglinu séð, og jörðin sömuleiðis. Sú hlið tungls sem þarna sést, er hliðin sem snýr frá jörðu, svo að þar sést ekki "karlinn í tunglinu" sem svo er nefndur. Stærðarmunur tungls og jarðar er áberandi, en munurinn er reyndar meiri en myndin gefur til kynna því að tunglið er nær myndavélinni en jörðin. Þvermál tunglsins er rúmlega fjórðungur af þvermáli jarðar, en ekki rúmlega þriðjungur eins og myndin gefur í skyn.

   Á myndinni kemur fram dökkur skuggi meðfram hægri rönd tunglsins. Þetta er blekking sem stafar af því hvernig myndin er tekin. Í rauninni eru þetta þrjár myndir, hver með sínum lit, sem sameinaðar eru í eitt til að fá mynd í réttum litum. Myndirnar þrjár eru teknar með hálfrar mínútu millibili, og hreyfing tungls á þeim tíma veldur því að sameinuð mynd truflast við tunglröndina.

  Hér fyrir neðan má sjá hvernig tunglið færist yfir jörðina, séð frá gervitunglinu.



Myndirnar eru fengar af vefsíðu Bandarísku geimvísindastofnunarinnar:

http://www.nasa.gov/feature/goddard/from-a-million-miles-away-nasa-camera-shows-moon-crossing-face-of-earth

Viðbót
Nú hefur geimvísindastofnunin komið upp sérstakri vefsíðu sem sýnir myndir af jörðinni teknar frá þessu gervitungli mörgum sinnum á sólarhring. Gervitunglið gerir ýmsar mælingar á lofthjúpi og gróðri jarðar, en annað helsta hlutverk þess er að fylgjast með sólinni og vara við sólgosum sem gætu haft áhrif á hér á jörð.

Þ.S. 17. október 2015. Síðasta viðbót 30.10. 2015

Almanak Háskólans