Rís fullt tungl alltaf á austurhimni?

Á vinsælli íslenskri vefsíðu stendur eftirfarandi málsgrein í lýsingu á stjörnuhimninum í desember:

"Fullt tungl er í andstæðri stefnu við sól (180°). Fullt tungl rís á austurhimni í kringum sólarlag."

Í fljótu bragði mætti ætla að hér væri um augljósan og algildan sannleik að ræða, en svo er ekki. Þegar tungl er fullt er það vissulega andspænis sól, en það er sjaldnast nákvæmlega gegnt sólu. Ef hornið er mjög nærri 180° verður tunglmyrkvi. Það gerist reyndar hinn 10. desember 2011, þótt ekki sé greint frá því í umræddri lýsingu. Þá verður tunglið almyrkvað þegar það kemur upp austast á landinu, en myrkvað að hluta þegar það kemur upp í Reykjavík. 

Ekki er það svo að fullt tungl rísi alltaf á austurhimni. Hinn 10. desember rís það nær norðri en austri, og hið sama gilti við tunglfyllingu í nóvember þótt munurinn væri minni. Við segjum í daglegu tali að sól rísi í austri og setjist í vestri, en á Íslandi er þetta langt frá því að vera algilt. Um hásumarið sest sól nær norðri en vestri og um hávetur sest hún nær suðri en vestri. Af þessu leiðir að um hásumar rís fullt tungl á suðurhimni og um hávetur rís það á norðurhimni.

Þ.S. 27.11. 2011
---------------------------

Viðbót 4. 3. 2012. Málsgreinin sem varð tilefni þessarar athugasemdar hefur nú verið lagfærð.
 

 

Almanak Háskólans