Fjarlægðir í geimnum

Fjarlægðir milli stjarnanna í geimnum eru svo miklar að erfitt er að gera sér grein fyrir þeim. Besta leiðin til skilnings er líklega sú að ímynda sér smækkað líkan af himingeimnum. Þetta var reynt í grein í almanakinu 2019. Þar var lagt til grundvallar að fjarlægðin til sólar væri minnkuð í einn sentimetra. Allir helstu hnettir sólkerfisins yrðu þá innan við 30 sentimetra frá sól eða þar um bil. Á sama líkani yrði næsta sólstjarna í tæplega þriggja kílómetra fjarlægð.

Hér verður gerð tilraun með annan kvarða.

Hugsum okkur að stærsta reikistjarna sólkerfisins, Júpíter, sé sýnd sem depill á borð við punkt í lesmáli almanaksins, segjum ¼ úr mm í þvermál. Jörðin yrði þá 11 sinnum minni að þvermáli og því nær ósýnileg. Tunglið yrði 0,6 mm frá jörðu. Sólin yrði 2,5 mm í þvermál og 30 cm frá jörðu. Ysta reikistjarnan, Neptúnus, yrði 8 metra frá jörðu. Næsta sólstjarna, Proxima Centauri, yrði 70 km frá jörðu. Þvermál Vetrarbrautarinnar yrði 2 milljón km, þ.e. fjórföld vegalengdin til tunglsins og því ekki hægt að sýna hana á jarðbundnu líkani. Um aðrar vetrarbrautir þarf ekki að ræða.

Þ.S. 7.3. 2021

Almanak Háskólans