Nýjustu fréttir af Eris

Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum á þessari síðu, hafa stjörnufræðingar lengi glímt við að ákvarða nákvæmlega stærð reikistirnisins (dvergreikistjörnunnar) Erisar, ekki síst til að fá úr því skorið hvor sé stærri, Eris eða Plútó. Nú er lokið úrvinnslu mælinga sem gerðar voru í nóvember 2010 þegar Eris myrkvaði fastastjörnu í stjörnumerkinu Hvalnum. Niðurstaðan er sú að þvermál Erisar sé 2326 km, en óvissan í þeirri mælingu telst vera 12 km á hvorn veg. Þvermál Plútós er afar svipað,  2322 km samkvæmt síðustu mælingum, en óvissan er þar líklega meiri vegna gufuhvolfs sem gerir erfiðara að ákvarða hvar röndin er. Ekki verður því fullyrt hvor hnötturinn er stærri. Hins vegar er staðfest að Eris er mun þyngri (hefur meiri massa) en Plútó, svo að munar 27%. Miðað við stærð og fjarlægð er Eris ótrúlega björt, svo að mönnum telst til að hún endurvarpi um 96% af því sólarljósi sem á hana fellur. Ef þetta er rétt er yfirborðið skjannahvítt, hvítara en snjór, sem endurvarpar tæplega meiru en 90% af sólarljósi. Sambærilegt endurkast hefur aðeins sést frá einum hnetti í sólkerfinu, Enkeladusi, sem er eitt af tunglum Satúrnusar.  

Þ.S. 21.1. 2012.

Almanak Háskólans