Nokkra daga á ári hverju fer jörðin gegnum loftsteinastrauma og sjást þá óvenjumörg stjörnuhröp á himni. Helstu straumarnir hafa hlotið sérstök nöfn sem dregin eru af heitum þeirra stjörnumerkja er stjörnuhröpin virðast stefna frá. Í Almanaki Háskólans er merkt við þá daga sem von er á loftsteinadrífum. Þar er þó aðeins getið um helstu drífur, og aðeins þær sem sjást frá norðurhveli jarðar. Mun fleiri drífur eru þekktar, og stöku sinnum geta þær orðið mjög glæsilegar. Ein slík heitir Drakónítar, kennd við stjörnumerkið Drekann (Draco) sem gengur yfir hápunkt himins á Íslandi (sbr. kortið á bls. 71 í almanakinu). Að jafnaði er þessi drífa lítt áberandi, en tvisvar á síðustu öld kom hún mönnum verulega á óvart. Var það árin 1933 og 1946, en þá sást á himni skæðadrífa stjörnuhrapa, fleiri en eitt á hverri sekúndu. Talsverð aukning varð líka árin 1998 og 2005, og í ár hafa stjörnufræðingar leitt líkum að því að meiri háttar sýning sé í uppsiglingu, nánar tiltekið að kvöldi 8. október, milli klukkan 16 og 22. Drakónítarnir tengjast halastjörnunni Giacobini-Zinner (21P) sem kennd er við tvo stjörnufræðinga með þessum nöfnum. Þegar jörðin fer gegnum braut þessarar halastjörnu rekst hún á sæg smárra brota úr halastjörnunni sem dreifst hafa eftir brautinni. Sums staðar eru þéttari hnyklar sem myndast hafa við óvenjulega virkni í halastjörnunni. Spáin í ár lýtur að því að jörðin kunni að fara gegnum hnykla sem myndast hafi seint á 19. öld. Þótt spáin sé engan veginn örugg, er vissara fyrir stjörnuáhugamenn að hafa augun hjá sér að kvöldi 8. október næstkomandi. Þess ber að gæta að ekki er orðið fyllilega dimmt hérlendis ("stjörnumyrkur") á þessum árstíma fyrr en um eða eftir klukkan 21, og birta frá tungli getur spillt athugunarskilyrðum. Þ.S. 19. 9. 2011 |