Brandajól

      Þegar líður að jólum er þeirri spurningu stundum varpað fram hvort nú muni ekki vera "brandajól" eða jafnvel "stóru brandajól". Þessi spurning var mjög til umræðu í fjölmiðlum árið 1992 þegar jóladag bar upp á föstudag. Jólahelgin lengdist þá um einn dag við það að þriðji í jólum var sunnudagur. En voru þetta stóru brandajól? Í Almanaksskżringum sem undirritašur birti ķ Almanaki Þjóðvinafélagsins árið 1969 og nś eru finnanlegar į žessu vefsetri (sjį hér), var eftirfarandi skýring gefin:
 
brandajól, jól sem falla þannig við sunnudaga, að margir helgidagar verða í röð. Venjulega haft um það, þegar jóladag ber upp á mánudag. Stundum hefur verið gerður greinarmunur á "stóru" brandajólum og "litlu" brandajólum, en notkun heitanna virðist hafa verið á reiki. Nafnskýring óviss, ef til vill tengt eldibröndum á einhvern hátt. Sunnar í löndum kemur svipað orð fyrir í sambandi við páskaföstuna (Dominica Brandorum: 1. sunnudagur í föstu).

      Ætlunin er að bæta nokkru við þessa skýringu með því að rekja helstu heimildir. Sú elsta mun vera minnisblað sem Árni Magnússon ritar, líklega í byrjun 18. aldar (AM 732 a XII 4to). Þar segir að brandajól kalli gamlir menn á Íslandi þegar jóladag ber upp á mánudag, áttadag (nýársdag) á mánudag og þrettándann á laugardag. Árni bætir reyndar við, að sumir telji þá aðeins brandajól, að þetta gerist á hlaupári, en erfitt er að skilja ástæðuna fyrir slíkri reglu. Á þessum tíma og fram til 1770 var þríheilagt á stórhátíðum, svo að þriðji í jólum var helgidagur. Þegar jóladag bar upp á mánudag, urðu því fjórir helgidagar í röð (fjórheilagt).

      Önnur heimild, nokkru yngri, er orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (AM 433 fol.), sem rituð er á latínu. Þar segir að brandajól heiti það þegar fjórir helgidagar fari saman. Séu það brandajól meiri, ef sunnudagurinn fari á undan fyrsta jóladegi, en brandajól minni, ef sunnudagurinn fari á eftir þriðja degi jóla. Þetta mun ritað um miðja 18. öld.

      Næst er brandajóla getið í íslensk-latnesk-danskri orðabók sem séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi á árunum 1770-1785. Þar segir að brandajól séu þegar dagurinn fyrir fyrsta jóladag eða dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Er það sama skýring og hjá Grunnavíkur-Jóni, nema hvað Björn minnist hvorki á stóru né litlu brandajól. Tæpri öld síðar vitnar Eiríkur Jónsson í þessa heimild í orðabók sinni (Oldnordisk Ordbog, 1863), en bætir því við, að frekar séu það brandajól ef jóladagur sé föstudagur eða mánudagur. Eiríkur tekur þarna tillit til þess að þriðji í jólum er ekki lengur helgidagur og breytir skilgreiningunni samkvæmt því.

      Árið 1878 ritar Jón Sigurðsson grein um almanak, árstíðir og merkidaga í Almanak Þjóðvinafélagsins. Jón minnist á brandajól og segir, eins og Árni Magnússon, að menn hafi kallað það brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag. Jón nefnir, að sérstök helgi hafi áður fyrr verið á áttadegi jóla og þrettándanum, og hafi þessar helgar báðar lengst um einn dag á brandajólum. Það, að allar helgarnar þrjár lengist á brandajólum, kemur líka óbeint fram á minnisblaði Árna Magnússonar.

      Snemma á þessari öld ritar séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (d. 1916) um orðið brandajól (Íslenskir þjóðhættir, útg. 1934, bls. 207). Jónas segir, að fyrir 1770 hafi það heitið brandajól þegar fjórheilagt varð, hvort sem það bar þannig til að jóladagur féll á mánudag eða fimmtudag. Heimildar getur Jónas ekki, en Sigfús Blöndal gefur sömu skýringu í Íslensk-danskri orðabók (1924) og vitnar í orðabók Björns í Sauðlauksdal.

      Jónas frá Hrafnagili segir enn fremur, að eftir að jólahelgin var stytt, árið 1770, hafi menn kallað það brandajól þegar þríheilagt varð, þ.e. þegar jóladag bar upp á mánudag eða föstudag, en hina fornu fjórhelgi hafi menn kallað brandajól hin stóru. En Jónas segir líka, að menn hafi stundum kallað það stóru brandajól þegar jóladag bar upp á þriðjudag, svo að þarna eru komnar tvær skýringar á nafngiftinni "stóru brandajól" og hvorug þeirra fellur saman við hina eldri skýringu Jóns frá Grunnavík. Nýjustu skýringuna er að finna hjá Sigfúsi Blöndal sem segir að nú heiti það stóru brandajól þegar jóladag beri upp á föstudag og helgidagar verði fjórir í röð. Sigfús telur aðfangadaginn greinilega með helgidögum þótt hin kirkjulega helgi hefjist ekki fyrr en á miðjum aftni (kl. 18) þann dag. "Litlu brandajól" kallar Sigfús það þegar jóladagur er á mánudegi, því að þá verði helgidagar einum færri. Segja má að það skjóti skökku við, þegar þau einu jól sem Árni Magnússon kallar brandajól, og Jón frá Grunnavík kallar brandajól meiri, eru orðin að litlu brandajólum!

      Af framansögðu er ljóst að á liðinni tíð hafa menn lagt mismunandi skilning í orðið brandajól, einkum þó hvað séu stóru og litlu brandajól. Þær heimildir sem vitnað hefur verið í, benda eindregið til að orðið brandajól hafi upphaflega merkt einungis það þegar jóladag bar upp á mánudag. Síðan hafa einhverjir farið að kalla það brandajól líka, þegar sunnudagur fylgdi á eftir jólahelginni. Þau jól hafa þó verið nefnd brandajól minni eða litlu brandajól, því að þau urðu ekki til að lengja helgar um nýár eða þrettánda. Eftir að hætt var að halda þrettándann heilagan (1770) hafa menn horft meira til þess hvaða dagamynstur gæfi lengsta jólahelgi eða flesta frídaga. Það hefur leitt til frekari ruglings, hin upphaflega merking stóru brandajóla hefur gleymst, og loks hafa menn gert litlu brandajólin að þeim stóru.

       Ef menn vilja koma reglu á þetta mál, mælir margt með því að fylgt verði elstu heimildum og heitið brandajól einungis haft um það þegar jóladag ber upp á mánudag. En ef menn kjósa að hafa tvenns konar brandajól, mættu þetta heita stóru brandajól, en litlu brandajól yrðu þá þau jól þegar jóladag ber upp á föstudag. Ekki virðist ráðlegt að tengja skilgreininguna við annað en kirkjulega helgidaga því að aðrir frídagar eru sífelldum breytingum háðir og auk þess mismunandi eftir starfsstéttum. Samkvæmt þessu hefði í mesta lagi átt að telja jólin 1992 til litlu brandajóla, en næstu (stóru) brandajól uršu þá árið 1995.

       Um forliðinn "branda-" í orðinu brandajól er það að segja, að ýmsir hafa túlkað hann svo, að þar sé átt við eldibranda. Þetta er þó engan veginn víst, og gæti allt eins verið alþýðuskýring. Árni Magnússon hefur það eftir gömlum mönnum, að nafnið sé af því dregið, að þá sé hætt við húsbruna, en "adrer hallda þad so kallad af miklum liosa brenslum". Nafngiftin hefur því valdið mönnum heilabrotum í þrjú hundruð ár að minnsta kosti, og verður svo vafalaust enn um hríð.  

Þorsteinn Sęmundsson

Ž.S. 1993

Forsķša