Eiginhreyfing fastastjörnu ljósmynduð frá Íslandi

Snævarr Guðmundsson, áhugamaður um stjörnuskoðun og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, hefur í mörg undanfarin ár tekið ljósmyndir af himninum gegnum sjónauka. Fyrir nokkru tók hann mynd af tvístirninu 61 Cygni (61 í Svaninum) og bar saman við aðra mynd sem hann hafði tekið fyrir 11 árum. Á myndunum sést greinilega hvernig tvístirnið hefur hreyfst miðað við fjarlægari stjörnur, og einnig má sjá votta fyrir hreyfingu stjarnanna hvorrar um aðra (rangsælis), en umferðartími þeirra er um 700 ár. 

 
Fyrri myndin (til vinstri) var tekin með Meade spegilsjónauka, 25 cm (10 þumlunga) að þvermáli, en síðari myndin með stærri sjónauka sömu gerðar, 30 cm (12 þumlunga) í þvermál. Myndirnar spanna tæplega eina gráðu á himninum. Bilið milli stjarnanna í tvístirninu er aðeins hálf bogamínúta eða 1/120 úr gráðu, svo að stjörnurnar verða ekki aðgreindar með berum augum. Hér á eftir verður því stundum talað um "stjörnuna" þótt í reynd séu þær tvær. Myndin hér fyrir neðan sýnir nokkurn veginn sjónsvið myndavélarinnar í stjörnumerkinu Svaninum, en björtustu stjörnur þess merkis mynda kross á himninum.

  

Birtustig stjarnanna í  61 Cygni er 5,2 og 6,0. Heildarbirtustigið er 4,8 svo að "stjarnan" sést greinilega með berum augum. Frá sögulegu sjónarmiði er þessi stjarna afar merkileg. Menn fengu fyrst áhuga á henni árið 1792 þegar ítalski stjörnufræðingurinn Giuseppe Piazzi uppgötvaði að hún hafði óvenju mikla eiginhreyfingu, meira en 5 bogasekúndur á ári. Þetta benti til þess að hún væri sérlega nærri (af fastastjörnu að vera), og árið 1838 valdi þýski stjörnufræðingurinn Friedrich Wilhelm Bessel hana við fyrstu tilraun sína til að mæla fjarlægð fastastjörnu. Bessel mældi með mikilli nákvæmi hvernig staða stjörnunnar breyttist eftir því hvar jörðin var stödd á árlegri ferð sinni um sólu og komst að þeirri niðurstöðu að stjarnan væri 10 ljósár í burtu. Þessi niðurstaða var mjög nærri lagi; samkvæmt síðari mælingum er fjarlægðin 11,4 ljósár. Bessel kynnti niðurstöðu sína árið 1838 og er það venjulega talin fyrsta áreiðanlega mælingin á fjarlægð fastastjörnu. Englendingurinn Thomas Henderson mældi reyndar fjarlægð stjörnunnar Alfa í Mannfáki (Alpha Centauri) um svipað leyti, en þar sem hann birti niðurstöðu sína tveimur mánuðum á eftir Bessel, missti hann af heiðrinum. Af þeim fastastjörnum sem sjást með berum augum munu aðeins þrjár vera nær en 61 Cygni. Eru það Alfa í Mannfáki, Síríus og Epsilon Eridani, en Prókyon er í svipaðri fjarlægð og 61 Cygni.

Báðar stjörnurnar í  61 Cygni eru rauðar dvergstjörnur, miklu daufari en sólin. Fjarlægðin á milli þeirra er um 85 stjarnfræðieiningar, en stjarnfræðieining er meðalfjarlægðin milli jarðar og sólar.

  Þ.S. 18.11. 2003

Almanak Háskólans