132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1065  —  729. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sumartíma og skipan frídaga.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson,

Gunnar Örlygsson, Bjarni Benediktsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort ástæða sé til annars vegar að taka upp sumartíma á Íslandi og hins vegar að flytja sumardaginn fyrsta og verkalýðsdaginn að helgum í því skyni að landsmenn fái betra tækifæri til þess að njóta sumarsins og lengri helga.

Greinargerð.

    Ýmsir hafa sett fram hugmyndir og tillögur um sumartíma og flutning frídaga, einkum fimmtudagsfrídaga, án þess að skipulega hafi verið tekið á þessum málum af hálfu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Með þessari þingsályktunartillögu er hreyft við málinu þannig að það geti fengið eðlilega umfjöllun. Nefna má að á 117. löggjafarþingi var flutt mál svipaðs efnis (435. mál) og byggist þingsályktunartillaga þessi að nokkru leyti á því máli.
    Ef tekinn er upp sumartími færist hið náttúrulega hádegi frá um hálftvö til um hálfþrjú á daginn. Þetta þýðir að í raun mundi þjóðin vakna fyrr á sumrin og byrja daginn fyrr. En það þýðir líka að sólarinnar nýtur lengur þegar fólk kemur úr vinnu og þá getur verið þokkalega hlýtt á sumardögum nokkuð fram eftir deginum. Þetta gæfi þjóðinni því betra tækifæri til þess að njóta sumarsins og skapaði án efa betri sumarstemningu með öllu sem því fylgir, svo sem auknum möguleikum á frekari samverustundum með fjölskyldunni.
    Íslendingar taka þrjá fasta frídaga á fimmtudögum, skírdag, uppstigningardag og sumardaginn fyrsta. Að vísu kemur fyrir að skírdagur og sumardagurinn fyrsti falli saman. Skírdagurinn hefur þá sérstöðu í hópi fimmtudagsfrídaganna að falla inn í páskahelgina með föstudeginum langa og öðrum í páskum en hinir tveir, uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti, falla á fimmtudaga án þess að frídagur sé á undan eða á eftir. Annar hátíðisdagur um sama leyti er verkalýðsdagurinn 1. maí.
    Sú spurning hefur oft vaknað hvort ekki sé heppilegt að flytja fimmtudagsfrídagana að helgum og jafnvel taka þá á öðrum tíma. Um þetta hefur nokkrum sinnum verið rætt í kjarasamningum og a.m.k. einu sinni voru aðilar vinnumarkaðarins mjög nálægt því að gera sameiginlega tillögu um flutning a.m.k. annars þessara daga sem átti að vera liður í niðurstöðu samninganna.
    Ætla má að flutningur uppstigningardags að helgi sé viðkvæmari en flutningur sumardagsins fyrsta þar sem uppstigningardagur er einn af helgidögum þjóðkirkjunnar. Því liggur beinna við að kanna hvort ekki sé heppilegra að flytja sumardaginn fyrsta annaðhvort til föstudags eða mánudags næstu helgi á eftir. Enn fremur hefur komið fram það sjónarmið að æskilegt sé að flytja sumardaginn fyrsta frá þriðja fimmtudegi í apríl til sumarsins, t.d. júní- eða júlímánaðar. Ástæðan er sú að páskar og hvítasunna gera það að verkum að frídagar eru allþéttir á þessum tíma ársins. Vel mætti hugsa sér að taka upp frídag um fyrstu eða aðra helgi í júlí. Jafnvel gæti verið unnt að tengja daginn til skiptis við 17. júní eða sjómannadaginn til þess að lengja helgi svo að til yrði aukafrídagur á mánudegi eða föstudegi þegar 17. júní fellur á laugardag eða sunnudag en annars yrði frídagurinn fyrsta mánudag í júní.
    Möguleikarnir eru ýmsir og er hægt að koma þessum degi fyrir þannig að hann komi betur út fyrir almenning í landinu. Með sama hætti er einnig eðlilegt að kanna hvort rétt sé að breyta fyrirkomulagi verkalýðsdagsins þannig að hann verði t.d. fyrsti mánudagur í maímánuði í stað þess að vera bundinn almanaksdegi.